152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Ég er alveg innilega sammála. Auðvitað er þetta ekkert einfalt, ég geri mér grein fyrir því að það hlýtur alltaf að vera neyðarúrræði ef við ætlum að fara að slíta stjórnmálasambandi við Rússland. En samt situr einhvern veginn í manni að maður geti ekki annað en mótmælt því að það skuli — ég hef séð tvo fjölmiðla taka viðtal við sendiherrann og hann kemur fram og neitar staðreyndum og maður hugsar bara einhvern veginn: Heyrðu, bíddu, hvernig er hægt að hafa þennan mann? Ég vona svo heitt og innilega að alla vega á meðan og þangað til — og ef hann þarf að vera hérna þá verði það vonandi til þess að fjölmiðlar komi ekki málstað hans á framfæri, það væri mjög gott.

En ég er mjög ánægður með að heyra að hæstv. ráðherra hafi haft samband við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp vegna þess að við vitum að það er auðvitað eitt að vera í stríði og vera fullfrískur en ef þú ert í þeim aðstæðum að þú getur hvergi björg þér veitt og ert jafnvel einn í þeirri aðstöðu að þú þarft hjálp en það er enga hjálp að fá — við erum að verða vitni að því að borgir eru búnar að vera rafmagns-, vatns- og matarlausar í nokkra daga. Fyrir bara venjulegt fólk að vera í þeirri aðstöðu er auðvitað slæmt og skelfilegt, en fyrir þá sem eru fatlaðir eða veikir eða aldraðir og eru rúmfastir þá hlýtur þetta að vera eitt það skelfilegasta ástand sem við getum hugsað okkur. Þess vegna þarf að brýna fyrir hjálparsamtökum að það þarf einhvern veginn að reyna að ná til þessa fólks þannig að þau hafi möguleika á því að hjálpa því.