152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð bara að segja jú, það er okkar stefna að við styðjum NATO. Ég styð NATO heils hugar og ég tel að það sem er að ske núna í heiminum sýni okkur svart á hvítu að það að vera hlutlaus er ekki lengur val. Við sjáum það bæði á umræðunni í Finnlandi og Svíþjóð og við sjáum það líka á að aðalvígi hlutleysis brast og það var í Sviss. Fólk er farið að átta sig á því að það að segjast vera herlaus eða hlutlaus gengur ekkert upp. Þá erum við bara að segja að við ætlum að sætta okkur við það ástand sem er í heiminum. Það verður aldrei ásættanlegt. Við getum aldrei sætt okkur við það sem er í gangi í Úkraínu, aldrei nokkurn tímann.

En ég skal alveg viðurkenna að fyrst þegar ég heyrði í þotunum yfir Kópavogi í gær þá hugsaði ég: Bíddu, þeir eru að skafa. En svo hugsaði ég: Nei, þeir eru ekki að skafa, það er enginn snjór. Það er löngu búið að skafa þarna. Síðan áttaði ég mig á því hvað þetta var. Þetta voru töluverðar drunur og stóðu töluverðan tíma. Ég veit ekki hvort þetta voru tvær eða þrjár vélar en þetta minnti mann á og einhvern veginn kveikti ég á því að stríðið væri í gangi. Þetta var ekki neitt til að hræðast en eins og ég segi get ég skilið að sumir hafi hræðst vegna þess að þetta er eitthvað sem við erum ekki vön. En ég hugsaði með mér líka hvernig þeim líður í Úkraínu þegar rússneskar þotur fara þar yfir.