152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún innti mig eftir svörum um Norðurskautsráðið og vil ég nefna það fyrst að ekki er ofmælt að þróunin í Afganistan undir lok síðasta sumars sé vægast sagt veruleg vonbrigði og mikið áhyggjuefni. Það er mikilvægt að öfgahópar nái ekki aftur fótfestu í landinu og það verði griðastaður hryðjuverkaafla eins og þegar talibanar réðu þar síðast ríkjum. Við verðum að bregðast við neyðinni sem þar hefur skapast og standa vörð um þann margvíslega árangur sem þó hefur náðst á undanförnum tveimur áratugum eins og frekast er unnt. Varðandi Norðurskautsráðið þá hafa aðildarríki ráðsins, fyrir utan Rússland, gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess í mótmælaskyni við innrásina í Úkraínu. Í yfirlýsingu aðildarríkjanna, mínus Rússlands, segir að aðildarríkin séu sannfærð um gildi Norðurskautsráðsins fyrir samstarf á norðurslóðum og ítreki stuðning við ráðið og starfsemina. Ríkin beri ábyrgð gagnvart íbúum norðurslóða, þar á meðal frumbyggja sem leggi sitt af mörkum og njóti góðs af mikilvægu starfi ráðsins. Eins og staðan er núna er allt þannig séð í frosti. Af fundi sem áætlaður var í apríl í Rússlandi verður ekki en sagt skýrt að ekki sé verið að klippa á eitt né neitt. Verkefnin fara ekkert og það verður verkefni til meðallangs tíma og lengri tíma að grisja aðeins frá til að standa vörð um vísindalegt samstarf svo að áfram sé hægt að vinna að því sem þarf að vinna að þrátt fyrir þessa pólitísku stöðu. Ekki eru nema tæpar þrjár vikur síðan við ráðherrar Norðurlanda ítrekuðum öll að það skipti máli að halda lágri spennu hátt í norðri þannig að hlutirnir breytast hratt. En við munum þurfa að finna lendingu í því að halda starfinu áfram með einhverjum hætti.