152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr svör. Það er gott að fá það staðfest úr þessum ræðustóli að gert hafi verið tímabundið hlé á samstarfinu innan Norðurskautsráðsins vegna innrásar Pútíns í Úkraínu. Það er eitthvað sem verður að bregðast við á staðnum og í svona samstarfi. En um leið er mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að reyna að gæta þess að ekki slitni upp úr verkefnunum sem verið er að vinna í grasrótinni. En eins og bent var á hefur það verið grundvöllur starfsins í Norðurskautsráðinu og alls samstarfs á norðurslóðum að halda því svæði í lágspennu, eins og menn sem hafa áhuga á stríðsfræðum kalla það, og að halda friðsamlegum samskiptum þar.

Varðandi Afganistan þá þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að ávarpa það líka. Já, það er erfitt að hafa augun á mörgum málum í einu en við megum ekki taka augun af því sem er mikilvægast og við þurfum að sinna áfram þrátt fyrir stríðið í Úkraínu. Það gleður mig að heyra að ráðherrann er líka með augun á Afganistan. Það sem gerist á þessum erfiðu tímum er að myndavélarnar fara bókstaflega allar á sama stað, myndavélar fréttastofanna í heiminum, en það þýðir ekki að það sé ekki í neyð, það séu ekki átök, það sé ekki hungursneyð í öðrum löndum og þar nefni ég Afganistan og Jemen.