152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á umræðurnar hér. Mér svelgdist aðeins á áðan þegar hæstv. utanríkisráðherra sagði að stríðið í Úkraínu, og þær vendingar sem af því leiða, þýddi ekkert endilega að hlutverk Evrópusambandsins væri að verða meira. Hvers vegna ætli það sé nú sem Úkraína, Moldóva og Georgía sækja það svona ofboðslega fast að fá aðild að Evrópusambandinu? Hvers vegna ætli Danir séu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu næsta sumar um að hefja þátttöku í varnarsamstarfi á vettvangi Evrópusambandsins, þ.e. að hverfa frá þeirri undanþágu sem Danmörk hefur verið á í þessum efnum síðan aðildarsamningurinn var gerður á sínum tíma? Hvers vegna ætli það sé sem Frakkar, sem hafa alla jafna verið á bremsunni gagnvart stækkun Evrópusambandsins, eru farnir að viðurkenna með mjög afgerandi hætti þörfina á því að ríkin í austri, sem eru berskjölduð fyrir árásargjarnri utanríkisstefnu Rússlandsstjórnar, fái skjól hjá sambandinu? Ætli það sé ekki einmitt vegna þess, virðulegi forseti, að þessar þjóðir og þessir þjóðarleiðtogar átta sig á því að hlutverk Evrópusambandsins er og verður núna mikilvægara en nokkru sinni fyrr í sögunni? Þegar beinlínis er ráðist inn í fullvalda lýðræðisríki í Evrópu þá segir það sig eiginlega sjálft að ríkjasamband sem langflest Evrópuríki tilheyra og sem var beinlínis stofnað til að stuðla að og viðhalda friði í Evrópu — þá fær þetta samband alveg ofboðslega mikilvægt hlutverk og þarf að starfa í samræmi við það.

Jean Monnet, einn af frumkvöðlum og upphafsmönnum Evrópusambandsins, sagði eins og frægt er orðið að Evrópa yrði mótuð og búin til í glímunni við einhvers konar meiri háttar erfiðleika. Ég ætla nú bara að segja þetta á ensku, ekki frönsku þó: „Europe will be forged in crises and will be the sum of the solutions adopted for those crises.“

Þetta raungerðist í fjármálakreppunni og eftirköstum hennar, þetta raungerðist í viðbrögðunum við heimsfaraldri og nú raungerist þetta með mjög afgerandi hætti í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þá hefur það komið í hlut Evrópusambandsins að kynna víðtækari og meira afgerandi efnahagslegar þvingunaraðgerðir — við getum í raun kallað þetta efnahagslegan stríðsrekstur gegn Rússlandi — en nokkurn tímann í sögunni. Það er Evrópusambandið sem hefur tekið sér mjög virkt hlutverk í baráttunni við upplýsingaóreiðu, falsfréttir og annað í Austur-Evrópu. Það hefur meira að segja komið í hlut Evrópusambandsins að senda hergögn til Úkraínu, nokkuð sem hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum mánuðum.

Undanfarna daga hafa bæði Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, talað um að nýtt skeið sé að renna upp í Evrópu sem kalli á meiri samstillingu og samvinnu á vettvangi Evrópusamstarfsins. Þjóðverjar hafa kúvent sinni varnar- og öryggisstefnu og hvatt önnur Evrópuríki til að fylgja því fordæmi. Ég verð að segja að mig grunar að nær allir frjálslyndir og alþjóðlega sinnaðir leiðtogar í Evrópu séu ósammála hæstv. utanríkisráðherra Íslands um að hlutverk Evrópusambandsins sé ekkert endilega neitt meira en áður. Það er einfaldlega þannig að það blasir við okkur svolítið nýr veruleiki í alþjóðamálum og Evrópusambandið hefur sýnt það á síðustu vikum að það hefur alla burði, og samstaðan er þannig innan þess, meðal þessara vestrænu lýðræðisríkja sem deila gildum að svo mörgu leyti, til að þróast í takt við þetta.