152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[18:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður kom inn á. Við getum velt því fyrir okkur að við tökum þetta mál hér út; nú eru komin fjögur ár frá því að eftirlitið fór fram, þrjú ár frá því að skýrslan kom út og þar var ábendingum beint sérstaklega til heilbrigðisráðherra. Við því var brugðist og hér erum við með frumvarp. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi fái að fjalla um þetta frumvarp sem kemur frá umboðsmanni Alþingis sem sinnir OPCAT-eftirliti. Ég held að við horfum ekki á þetta mál, af því að hv. þingmaður kom inn á það að hér er um að ræða mjög viðkvæman hóp og viðkvæmt mál, með flokkspólitískum gleraugum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að velferðarnefnd taki málið til umfjöllunar og meti einmitt þennan þátt. Það eru rök sem mæla með því, þess vegna fór ég inn á það í formála í ræðu minni, að taka þetta (Forseti hringir.) í samhengi við önnur mál tengd öryggisvistunarmálum félags- og vinnumarkaðsráðherra, önnur tengd (Forseti hringir.) mannréttindamál, lögræðislög sem eru í heildarendurskoðun. Það gæti tekið óratíma en það kann að vera að velferðarnefnd (Forseti hringir.) sjái rökin á bak við slíka heildarendurskoðun og það sé tekið í því samhengi. En ég myndi vilja að Alþingi og hv. velferðarnefnd fari yfir málið. (Forseti hringir.) Mér finnst bara sanngjarnt og eðlilegt að velferðarnefnd fái þetta mál til umfjöllunar.

(Forseti (DME): Ég bið hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að virða ræðutíma.)