152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að fletta aðeins upp í hv. þingmanni sökum fyrri starfa hennar á vegum ákæruvaldsins og þekkingar á réttarkerfinu. Hér erum við með á síðu fjögur f- og g-liði, annars vegar um kæru til sérfræðiteymis og hins vegar um málskot, sem sagt um úrræðin sem standa fólki til boða ef það vill ekki una þeirri nauðung sem boðið er upp á. Sérfræðiteymi sem kæra gengur fyrst til skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra barst en upphafsdagur frestsins telst vera næsti virki dagur á eftir þeim degi þegar kæran berst þannig að í rauninni er þetta lengri tími. Síðan er heimilt að bera úrskurð sérfræðiteymis undir héraðsdómara og skal hann úrskurða í málinu innan viku frá því kæra berst honum. Vilji viðkomandi enn ekki una niðurstöðu er hægt að skjóta málinu til Landsréttar og hraða ber meðferð máls þar svo sem kostur er.

Er þetta ekki dálítið langir tímafrestir? Látum landsréttarhlutann liggja á milli hluta, en þarna erum við að tala um sitt hvora vikuna sem kerfið getur verið að þæfast í málum gagnvart einstaklingi þar sem er mögulega verið að brjóta viðkvæmustu mannréttindi fólks, réttinn til sjálfsákvörðunar um það hvort fólk vill fara í bað eða borða, þvingaða lyfjagjöf og annað slíkt. Samræmist þetta því sem við viljum sjá í málsmeðferð þegar alvarleikinn er jafn mikill og í málum af þessu tagi?