152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála því að við þurfum að taka þessi skref. Eins og er hefur fólk merkilega mikið traust á pappírskosningum en miðað við reynslu okkar af því hvernig talning fór fram og hvernig atkvæðin eru þarna á mismunandi stöðum og gild atkvæði í ógilda kassanum og ýmislegt svoleiðis, þegar munar litlu getur það skipt gríðarlega miklu máli, þá er mjög skrýtið að fólk vantreysti rafrænu kosningunni. Ég skil það að einhverju leyti. Fólk óttast að hægt sé að hafa stórfelld áhrif á niðurstöðu rafrænna kosninga ef einhver er innan kerfisins. En það er hægt að nálgast það á annars konar hátt til að byrja með, eins og með kosningaposa í kjörklefanum þar sem þú kýst rafrænt en færð líka atkvæðaseðilskvittun sem þú skellir í kjörkassa. Þá ertu kominn með niðurstöðu kosninganna strax og ert með á pappírskvittun leið til að votta að rafræna kerfið skili réttum niðurstöðum. Það getur orsakað það seinna meir að við hættum að þurfa pappírskosninguna af því að þetta gengur bara allt. Þar gæti bálkakeðjan líka hjálpað t.d., sem er á bak við rafmyntirnar. Eitt af vandamálunum við kosningar utan kjörfundar, erlendis t.d., er að senda bréf í pósti yfir Atlantshafið eða Kyrrahafið eða hvernig sem það berst hingað, ég sé ekki að það sé neitt hættuminna en einmitt að skrá sig inn á rafræn skilríki og skrá sig þannig. Vandamálið þar er að Íslendingar erlendis fá ekki rafræn skilríki sem er þá bara eitthvað sem við þurfum að laga og gera betur. Það eru því tvímælalaust möguleikar þarna til þess að gera hlutina nákvæmari (Forseti hringir.) og gríðarlega stór sóknarfæri sem spara okkur heila nótt (Forseti hringir.) af mögulegum mistökum.