152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er í rauninni býsna alvarlegt sem hv. þingmaður er að segja varðandi mun á meðferð kjörgagna eða kjörseðla eftir að búið er að greiða atkvæði eftir því hvort þú mætir á kjörstað og greiðir atkvæði eða utan kjörfundar. Ég sá það líka þegar við sátum í kjörbréfanefnd á síðasta kjörtímabili að þá var verið að fást við seðla sem komu úr sendiráðum. Það var býsna frjálslega farið með þær reglur sem eru í kosningalögunum. Ég hafði af þessu nokkrar áhyggjur af því að framkvæmdaraðilar kosninga verða að vera með reglurnar á hreinu, ég held að það sé algjört lágmark. Svo virðist ekki vera, því miður. Svo auðvitað er líka verið að kvarta mjög yfir því einhvern veginn hvernig utankjörfundir eða kosning utan kjörfundar hér innan lands fer fram þegar sú kosning byrjar löngu áður en framboðinu eru komin fram. Vissulega getur kjósandi mætt aftur og lagað atkvæði sitt, það er nýjasti kjörseðillinn sem gildir. En miðað við t.d. klúðrið í Norðvesturkjördæmi þá hefur maður örlitlar áhyggjur af því að það sé nægilega tryggt að ekki sé verið að margtelja atkvæði frá sama fólki. Auðvitað er það sérstakt verkefni, held ég, að koma í veg fyrir að það séu einhverjir einstaklingar einir á báti að keyra langan veg með kjörkassa. (Forseti hringir.) Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það þurfi að koma í veg fyrir það.