152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseta. Já, það voru alvarlegar ábendingar sem komu fram í síðustu kosningum um varðveislu utankjörfundaratkvæðaseðla á meðan utankjörfundaratkvæðagreiðslunni stóð, að þeir hafi ekki verið geymdir í innsigluðum kjörkössum og jafnvel taldir eða flokkaðir áður, sem má ekki gera en er kannski eðlilegt að sé leyft af því að þetta er bara flokkun á milli talningarstaða í kjördæmum o.s.frv. En það var annað sem hv. þingmaður minntist á áðan sem ég vildi vekja aðeins athygli á. Hún talaði um vísuna og í rauninni auðkenningu atkvæðaseðils. Það er annað sem við höfum rosalega miklar áhyggjur af, virðist vera, að það sé einhvern veginn hægt að rekja það hver kaus út frá hverjum seðli. Ég held að þetta séu ýktar áhyggjur. Við erum of passasöm við þetta. Ég skil það að einhverju leyti og sérstaklega í sveitarstjórnarkosningum þar sem eru kannski fáir í kjördæmi o.s.frv. en þegar verið er að safna saman og keyra um langan veg og blanda saman atkvæðum eftir að búið er að stemma af o.s.frv. þá verður það mjög óljóst nema kannski sé búið að skrifa nafn viðkomandi á, en ég ætla ekki að fara í það. Það er ákveðið vegasalt í kosningu milli kosningaleyndar og kosningaöryggis sem slíks og þess að geta greitt atkvæði, áreiðanleiki er orðið þarna, t.d. með rafrænar kosningar. Margir hafa gagnrýnt það með rafrænar kosningar að hægt sé að para saman hver greiddi hvaða atkvæði. Það er hægt að útfæra það þannig að það sé ekki hægt, að sjálfsögðu, en það er aðeins flóknara. En við höfum rosalega miklar áhyggjur af (Forseti hringir.) auðkenningu atkvæða, réttilega held ég en of miklar.