152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Einhverjum finnst kannski skrýtið hvað við viljum tala mikið um kosningamál en það er nú einu sinni þannig að í kosningum er ákveðið hverjir sitja hér inni. Sem 63. þingmaðurinn sem fékk úthlutað þingsæti í september þá skiptir það mig sérstaklega miklu máli að við gerum hlutina rétt. Það hefur oft verið sagt: Það er í lagi að gera mistök ef við gerum þau bara einu sinni, ef við lærum af þeim og lögum hlutina þannig að við gerum sömu mistökin ekki aftur. Þá þurfum við að vera tilbúin að horfa á gagnrýninn hátt á öll þau atvik sem komu upp, ekki bara í þessum alþingiskosningum heldur líka í öðrum kosningum. Þó svo að einhver þeirra hafi verið löguð í nýjum kosningalögum er enn fullt af atriðum sem kjósendur, frambjóðendur, jafnvel yfirkjörstjórnir, rákust á sem ekki voru nógu skýr eða nógu vel úthugsuð. Eitt af því sem skiptir nefnilega miklu máli í svona flóknum lögum er að við spyrjum okkur spurninga eins og: Hvað ef? Hvað ef við ætlum t.d. í uppkosningu, hvaða reglur gilda þá? Við þekkjum það jú öll að í stjórnarskránni stendur að forseti geti neitað að skrifa undir lög og skulu lögin þá fara til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar þetta ákvæði var í fyrsta skipti virkjað uppgötvaði Alþingi að ekki voru til neinar leiðbeiningar um hvernig fara ætti í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að aldrei hafði verið spurt: Hvað ef?

Ég nefndi það hér, í síðustu umræðu um þetta frumvarp, að t.d. væri ákvæðið um uppkosningu, sem finna má í 125. gr., barn síns tíma og það þyrfti að skoða. Sú ákveðna grein kom fyrst inn í lög um kosningar til Alþingis þegar við vorum með einmenningskjördæmi. Þá var ekkert flókið að hafa uppkosningu, það þurfti einfaldlega að kjósa aftur um þennan eina alþingismann. Síðan settum við nokkra plástra á gömlu lögin og bættum því við að til væri eitthvað sem heitir listar í stærri kjördæmum. Og jú, þá hafði þetta bara áhrif innan þess kjördæmis. Svo bættum við enn einum plástrinum á kosningalögin af því að dreifing atkvæða var ekki rétt og við bjuggum til hugmyndafræðina um uppbótarþingmenn. Enn helst þessi eina grein og skal þá kosning fara fram að nýju. Hvað þýðir það? Þýðir það að kosning eigi að fara fram í því ákveðna kjördæmi? Á að fara í kosningar á öllu landinu upp á nýtt? Allt þetta er ekki skýrt. Á að raða uppbótarþingmönnunum aftur eða ekki? Það er ekki skýrt. Átti að taka tillit til þess að milli þess sem úrslitin voru kynnt og uppkosning hefði kannski verið ákveðin var landskjörstjórn búin að gefa út að fækka ætti þingmönnum í Norðvesturkjördæmi um einn og bæta honum inn í Suðvesturkjördæmi? Átti að kjósa upp á nýtt miðað við það? Ekkert af þessu hafði farið í gegnum þessa mikilvægu umræðu: Hvað ef? Þetta þurfum við að laga. Við þurfum að líta á lögin eins og þau eru og við þurfum að hugsa: Hvað gerist ef þessi grein fer í gegn? Ef þessi ákveðna grein verður virkjuð, hvað þýðir það? Höfum við hugsað út í hana í gegnum allt frumvarpið eða lögin?

Það er ekki bara greinin um uppkosningarnar sem þarf að skoða. Það kom bersýnilega í ljós, þegar kom að kosningunum sem síðast áttu sér stað, að hlutverk umboðsmanna, sér í lagi í tengslum við kosningaeftirlit, er ekki nægilega vel skilgreint. Má flokkur t.d. setja sitt eigið innsigli á kjörkassa áður en þeir eru fluttir úr kjördeild á talningarstað? Í sumum kjördeildum, sem ég fór í sem umboðsmaður og eftirlitsmaður listans, var svarið já. Í öðrum kjördeildum var svarið nei. Í sumum kjördæmum var svarið já, í öðrum kjördæmum var svarið nei. Þarna er fullt af atriðum sem eru óljós. Svo kom líka í ljós: Hvernig á að fara með það þegar verið er að telja þegar verið er að fara yfir vafaatkvæði? Þarf að hafa samband við alla umboðsmenn, þurfa allir umboðsmenn að vera á staðnum? Sums staðar fá umboðsmenn að standa og horfa á talninguna, annars staðar þurfa þeir að standa 10 til 20 metra frá, jafnvel uppi í rjáfri í Kaplakrika sem við Hafnfirðingar vitum að er engin smásmíði. (Gripið fram í: Segðu.) Allt þetta þurfum við að skilgreina betur og það dugar ekki alltaf að segja: Já, við setjum bara einhverjar reglur um þetta. Þegar og ef einhver ætlar að svindla þurfum við að hafa gott umhverfi til að fylgjast með því. Við horfum líka á það með kjörbréfanefnd, sem fékk nú að vera ansi lengi að vinna í haust, að sá kafli um það hvernig Alþingi úrskurðar um gildi kosninga — ég er næstum viss um að þeir hv. þingmenn sem sátu í þeirri nefnd geta eflaust bent á ansi mörg atriði sem betur mættu fara í því hvernig starf kjörbréfanefndar er skilgreint, skv. XXII. kafla laganna. Lærum af því svo að næsta kjörbréfanefnd þurfi ekki að ganga í gegnum sömu vandræði og geti kannski komist að niðurstöðu á innan við tveimur mánuðum.

Að lokum er enn eitt sem mikið var bent á og hv. þingmenn hafa nefnt hér á undan en það er um atkvæði greidd utan kjörfundar, sérstaklega þau atkvæði sem greidd eru erlendis. Hafandi búið erlendis stóran hluta af síðasta áratug get ég svo sannarlega sagt að það er flókið og erfitt að nýta sér þann rétt sem við höfum til að kjósa í kosningum. Í fyrsta lagi er það oft þannig að langar vegalengdir eru í næsta kjörræðismann eða sendiráð. Til dæmis hefði verið algjörlega ómögulegt fyrir mig að kjósa þegar ég bjó í Rúanda í miðri Afríku vegna þess að öll landamæri voru lokuð og næsta sendiráð og næsti kjörræðismaður í yfir 20 klukkustunda akstursfjarlægð. Við þurfum að vinna í því að bæta net okkar af kjörræðismönnum úti um allan heim þannig að Íslendingar erlendis geti kosið. Svo var það þannig að margir kjörræðismennirnir vissu ekki einu sinni af því að það væru að koma kosningar og þegar kjósendur, Íslendingar búsettir erlendis, ætluðu að bóka sér tíma til að greiða atkvæði voru engir kjörseðlar komnir og engar leiðbeiningar. Þetta þurfum við að laga og svo, eins og ítrekað kom fram í ræðum áðan, var þó nokkuð um að atkvæði greidd erlendis uppfylltu ekki skilyrði um frágang vegna þess að ekki höfðu verið gefnar nógu góðar leiðbeiningar um það hvernig gera ætti slíkt. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að taka á. Að sjálfsögðu þurfum við líka að taka á því að þó svo að við sem eldri erum séum vön því að setja X í box er það nú sennilega þannig að öllum sem eru fæddir 1990 og seinna finnst það að velja felast í því að fylla út í boxið, af því að þannig kenndi Menntamálastofnun þeim að svara ætti spurningum í samræmdum prófum. Það er því fullt af atriðum sem við þurfum að laga í þessu.

Mér þykir mjög miður að tækifærið hafi ekki verið notað núna til að laga þessi atriði en ég bind sterkar vonir við að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vinni vel saman í að skoða öll þessi atriði, ekki bara það sem lögreglan á Vesturlandi benti á í gær heldur öll þessi atriði sem betur mega fara og tryggi að við gerum ekki sömu mistökin tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum, nú eða fimm sinnum. Þá eru það ekki lengur mistök, þá er það orðið þráhyggja. Lögum þetta því að þetta skiptir máli. Það skiptir máli að vilji kjósenda endurspeglist hér á þinginu. Ég hvet eindregið til þess að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd — það er víst ekki hægt að vísa þessu aftur til hennar — setji þá frumkvæðisathugun í gang að laga þau mistök eða fyrirbyggja þau mistök sem urðu við kosningarnar í haust, og greinilega vantar enn þá upp á í þessum lögum; geri það hið snarasta og komi með það hingað í þingið. Ég trúi því að þingmenn allra flokka vilji að þær lagfæringar séu gerðar áður en við þurfum aftur að fara að kjósa til Alþingis.