152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[16:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég vil bara árétta það að ég hef aldrei starfað við kosningaeftirlit. Ég hef starfað í kosningum í kjörstjórn sem reyndar gerir það að verkum að ég get tekið undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi það að skýrar reglur þjóna sannarlega þeim sem eiga að sinna þessum verkefnum og bera ábyrgð á þeim. Það er ekki síst þegar um einfaldan hlut er að ræða eins og þann að kosning þarf að vera 100% traust og örugg eða eins nálægt því og hægt er, að þá verða reglurnar jafnvel flóknari en maður myndi gera sér í hugarlund eða myndi halda. Þá vakna akkúrat þessar spurningar sem koma oft upp í þessum störfum sem er: Hvers vegna er þetta svona eða hinsegin? Það skilur það í rauninni enginn og ef við skiljum það ekki þá er ekki heldur hægt að ætlast til þess að t.d. allir háskólanemarnir sem er kippt inn í kjörstjórn og í kjörklefa og annað og eiga strika yfir nöfn og þess háttar skilji það, það er ekki hægt að gera þá kröfu að allir skilji þau atriði sem hafa valdið vandræðum í kosningum í þjóðríkjum í gegnum tíðina. Þá er gríðarlega mikilvægt að þau hafi gríðarlega skýrar leiðbeiningar og að þær séu mjög nákvæmar, séu gagnsæjar, séu skýrar. Ég er á þeirri skoðun að þetta eigi meira og minna allt saman að vera í lögum. Ég hef heyrt því fleygt að fólk líti á reglugerðir meira sem einhvers konar handbækur, lögin séu eitthvað svona stórt og alvarlegt en ég held að í framkvæmd þá ætti það ekki að vera neitt öðruvísi að lesa lagabálk en að lesa reglugerð. Þannig að það að hafa lögin, hafa þetta í rauninni á einum stað væri sennilega betra, hafa bara kosningalögin það skýr að við þurfum enga reglugerð. Þess væri náttúrulega óskandi þó að það séu kannski einhver smáatriði sem þyrfti að útfæra í reglugerð. Það þarf þá að vera eitthvað sem breytir ekki öllu, hvort það sé gert á einn hátt eða annan. (Forseti hringir.)

Varðandi spurningu þingmannsins, sem ég er ekki enn þá komin að, þá tel ég okkur ekki vera búin að finna lausn til að tryggja að kosning sé leynileg í netkosningu. (Forseti hringir.) Ég er hins vegar á þeirri skoðun og hef verið í dálítinn tíma að við séum komin á þann stað að geta haft kosningar rafrænar og (Forseti hringir.) fannst mjög áhugavert að hlusta á hv. þm. Björn Leví Gunnarsson áðan varðandi lausnir á þeim vandamálum sem hafa verið nefnd í því samhengi.

(Forseti (BLG): Forseti minnir á ræðutímann.)