152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni kærlega fyrir hans innlegg. Núna nefndi hann það að við séum öll sammála um að það eigi að breyta kosningalögum og flokkar fái það sem þeim ber. Það er alveg hárrétt. Ég held að við séum öll sammála um það og við þurfum að ná þeirri samstöðu hér fram í atkvæðagreiðslu því að þetta er auðvitað mikið réttlætismál. En það er bara kjarni máls, sem hv. þm. Logi Einarsson og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi líka og kom inn á á undan, að það þarf auðvitað meira til. Það er búin að vera í gangi í gegnum áratugina einhver ákveðin byggðaþróun sem við hljótum öll að horfa til og hafa áhyggjur af og við hljótum að vilja efla búsetu út um allt land, alveg sama hvort við búum á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni. Það hafa svo sem verið stigin skref til að efla þjónustu út um landsbyggðirnar. Ég er mjög eindreginn talsmaður þess að það verði gert meira af því, bara mjög eindreginn talsmaður þess. Ég skal nefna tvö dæmi. Okkur er umhugað um þetta í mínum flokki, við viljum ákveðnar breytingar t.d. á sjávarútvegskerfinu sem þýðir að það kemur meira inn í ríkiskassann fyrir aðganginn að auðlindinni. Við viljum að sá peningur verði nýttur að einhverju leyti og jafnvel öllu leyti með mjög markvissum hætti til þess að efla byggð. Þegar við erum að tala um landbúnaðarmál erum við auðvitað að gera það af því að okkur þykir vænt um bændur og okkur þykir leiðinlegt að sjá ákveðnar stéttir bænda fastar í einhverri fátæktargildru sem eitthvert kerfi hefur búið til. Þannig að þótt við séum oft einhvern veginn að tala og reka hornin hvert í annað út frá höfuðborg og landsbyggð þá erum við, held ég, öll sammála um að við erum fólk í þessu landi, við viljum búa í þessu landi, við viljum hafa byggð út um allt landið. (Forseti hringir.) Ég tek heils hugar undir að ef það verður jafnt vægi atkvæða þá má vel ímynda sér að það megi koma með einhverjar markvissar mótvægisaðgerðir (Forseti hringir.) til þess einmitt að halda byggðinni í landinu á þeim stað sem við viljum.