152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:57]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þessi góða áætlun og sá góði vilji sem að baki býr breytir ekki þeirri staðreynd að það er víða mjög erfitt fyrir fjölskyldur, aðstandendur og þá eldri borgara sem hvergi fá inni. Ég nefni dæmi sem hér hefur áður verið nefnt sem er 92 ára faðir formanns Flokks fólksins, alinn upp í Ólafsfirði, hefur alið þar sína ævi og borgað sín útsvör en árum saman hefur hann verið á biðlista eftir að komast inn í alvöruheilbrigðisþjónustu og hefur í engin hús að venda önnur en sinnar eigin dóttur sem hefur nú nóg fyrir á sinni könnu.

Ég árétta enn og aftur mikilvægi þess að búa okkur undir þá staðreynd að bara eftir 15, 17 ár verður um fimmtungur þjóðarinnar kominn í hóp eldri borgara. Það eru margar leiðir t.d. varðandi félagslega þáttinn. Í tíð Eyglóar Harðardóttur var búin til lausn, sem féll dálítið í skuggann af umræðunni um skuldaleiðréttingu heimilanna, þar sem kveðið var á um 30% framlag sveitarfélags og ríkis til byggingar á félagslegu húsnæði sem á að vera hægt að byggja með þessari lágmarksarðsemiskröfu, sem því miður hefur verið að keyra hér húsnæði upp úr öllu valdi. Sá þáttur sem lýtur að andlegri örvun og því að vera að fást við eitthvað spennandi á hverjum degi, tónlist, skák og ég tala nú ekki um þá líkamlegu hreyfingu sem nauðsynleg er — ef ég væri heilbrigðisráðherra myndi ég búa til kerfi þar sem væri frír aðgangur að líkamsræktarstöð fyrir alla. Það er besta lýðheilsumál sem við getum gripið til með skömmum fyrirvara. Mig langar til að heyra viðbrögð heilbrigðisráðherra við þeirri hugmynd.