152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ein af grundvallarforsendum í lífi sérhvers manns er að hann sé öruggur í því sem hann er að gera og hann sé öruggur í því umhverfi sem hann er í og líka að hann sé öruggur um að geta séð sér farborða, geta greitt sína reikninga, staðið við sína skatta og skyldur og verið virkur þegn í samfélaginu. Þá kem ég að þeim tekjum sem eldra fólk hefur yfir að ráða, sem eru auðvitað misjafnar. Margir hafa getað lagt í sjóði, aðrir ekki. Margir eiga einhverja fjármuni í lífeyrissjóðum en af því að lífeyriskerfið er tiltölulega ungt á Íslandi þá eiga margir ekki mikinn rétt, margt láglaunafólk á ekki mikinn rétt í lífeyrissjóðunum. En við erum með kerfi sem er þannig að þegar þú ert orðinn 67 eða eldri og hefur gengið í gegnum þetta lífeyriskerfi þá er eins og það sé verið að refsa þér, það eiga allir að eiga bara einhvern 300.000 kall. Ef þú hefur átt eitthvað aðeins meira í lífeyrissjóðskerfinu þá er það bara tekið í gegnum skerðingar. Hefur þetta ekki áhrif á líðan fólks og ræður þetta ekki miklu um það hvernig fólki farnast á efri árum?