152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrri ræðuna. Ég hjó eftir einu sem er nefnt í þessari þingsályktunartillögu en það er um einmanaleikann og aukna virkni og þátttöku aldraðs fólks. Nú vitum við öll hversu auðvelt það er að loka sig af, verða einmana. Nú hefur, sérstaklega undanfarin tvö ár, verið mjög erfitt fyrir eldra fólk að nýta sér frístund, bingó, félagsvist, bridds og annað sem annars hefur verið í boði. Mig langaði að heyra hvað hv. þingmanni fyndist að við þyrftum að gera núna til að tækla það að koma þessum verkefnum aftur í betra horf.