152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og þó að ég teljist ekki vera aldraður enn þá, miðaldra kannski, þá reiknaðist mér til að þegar þessari aðgerðaáætlun lýkur megi ég akkúrat sækja um í Félagi eldri borgara. Þá er mjög passlegt að hafa skoðun á þessum málum, ekki satt?

Mig langar að tala aðeins um punkta sem koma fram í þessari aðgerðaáætlun. Þá er ég sérstaklega að tengja við punkta sem fjalla m.a. um velferðartækni og nýsköpun í þjónustu við aldrað fólk. Síðasta ríkisstjórn, sem reyndar er sama ríkisstjórn nema annar hæstv. heilbrigðisráðherra, fór í 150 millj. kr. fjárfestingarátak þar sem 12 fyrirtæki fengu á milli 3,5 og 15 milljónir í styrki til að vera með átak í því að nýta tækni. Ég saknaði þess stórlega að þetta ákveðna fjárfestingarátak í heilbrigðistækni hafði enga einkafjárfestingu tengda öldruðum eða því hvernig mætti sinna öldruðum betur og nýta tækni betur. Ég saknaði þess líka að í þessu ákveðna fjárfestingarátaki var aðallega verið að styðja verkefni inni á opinberum stofnunum en ekki endilega verið að horfa til nýsköpunarfyrirtækja sem gætu komið með góðar nýjar hugmyndir um hvernig mætti gera þetta. Að sama skapi var einungis settur út peningur. Það er nú þannig að í nýsköpuninni höfum við lært af biturri reynslu að ekki er nóg að setja bara pening heldur þarf líka að setja stuðning og þekkingu á sviði hugvits, nýta t.d. aðra frumkvöðla sem hafa gert hluti tengda heilbrigðistækninni, fá þá til að koma inn og aðstoða frumkvöðlana sem eru að gera þessa nýju hluti.

Af hverju er ég að tala um nýsköpun og aldraða? Er ekki nýsköpun eitthvað sem bara unga fólkið gerir? Nei, það er nefnilega ekki þannig. Tækni er heldur ekki eitthvað sem bara unga fólkið gerir. Ég nefni nú oft hana móður mína sem gott dæmi í þessu sambandi. Hún verður 79 ára á þessu ári og fyrst þegar Facebook kom út talaði hún nú ekki fallega um það en í dag er hún með fleiri vini á Facebook en ég og mér finnst ég nú eiga nóg og hún notar það meira en ég vegna þess að hún notar það til að hafa samskipti við gamla vini, gamla nemendur og ættingja víða um heim. Þarna sjáum við hvernig tækni, sem fyrst var kannski dálítið framandi, varð til þess að opna möguleika á því að halda sambandi við umheiminn og verða þar af leiðandi ekki einmana. Það er nákvæmlega það sem við viljum og höfum verið að ræða hér, m.a. í umræðu um þetta ákveðna mál, að við viljum aðstoða fólk við að búa lengur heima, við viljum aðstoða fólk við að halda sambandi við umheiminn en við viljum líka geta nýtt tækni til að veita þjónustu og jafnvel fylgjast með hvort allt sé í lagi.

Það er hægt að gera án þess að setja upp myndavélar heima hjá fólki. Ég hitti t.d. frumkvöðla fyrir einu og hálfu til tveimur árum sem fylgdust með rafmagnsnotkun til að átta sig á því hvort dagurinn hjá eldra fólkinu væri að líða eins og venjulegur dagur. Var viðkomandi að kveikja á katlinum á morgnana til að fá sér te, rista brauð? Það var fylgst með rafmagnsnotkuninni vegna þess að þegar allt í einu var ekki hitað te að morgni til, ekki var verið að rista brauðið þá var kannski eitthvað að. Þá voru ættingjar látnir vita og það eina sem þeir voru látnir vita var: Rafmagnsnotkunin er öðruvísi en venjulega. Prófaðu að hafa samband við hana. Og viti menn, þetta virkaði. Þarna var einhver sem hugsaði á nýjan hátt — hvernig getum við leyft fólki að búa lengur heima en vakta það samt á máta sem er ekki árás á persónuvernd þess? — og nýtti til þess nýjustu tækni til að fylgjast með þessari rafmagnshegðun.

Það er líka hægt að gera fleira. Það er t.d. hægt að fylgjast með því hvort fólk man eftir því að taka lyfin sín. Ég þyrfti nú stundum á slíku appi að halda. Ef við getum t.d. fylgst með sykursjúku fólki, hvort það er að mæla sig reglulega, hvort það er að taka lyfin reglulega og alla þessa hluti, þá getum við einfaldað kerfið sem við þurfum til að hugsa um fólk, vegna þess að enn og aftur: Það vill enginn fara á hjúkrunarheimili. Fólk vill fá að búa heima hjá sér, fólk vill fá að njóta lífsins eins lengi og það getur. Við getum nýtt okkur tæknina til að gera slíkt. Það er mikilvægt þegar við finnum pening, eins og greinilega fannst árið 2020 í þetta fjárfestingarátak, að hann sé vel nýttur í að koma með nýjar hugmyndir og nýja sýn á það hvernig við getum bætt þá þjónustu sem við veitum öldruðum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa á og vinna með hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að því hvernig hægt væri að fara í nýsköpunarátak tengt þjónustu við aldraða sem hluta af þessari stefnu. Ekki bara tala um að við þurfum að nýta tæknina, ekki bara tala um að við þurfum að hafa einhverja nýsköpun heldur hvernig við gerum það í samvinnu milli ráðuneyta. Hvernig gerum við það á máta sem nýtir sér þá reynslu og þekkingu sem við höfum af nýsköpun á öðrum sviðum og leyfum fólki þannig að njóta æviáranna lengur heima hjá sér í betri tengslum við fjölskyldu, vini og ættingja og nýtum okkur tæknina? Þannig að eftir nokkur ár þegar hæstv. ráðherra er kominn á eftirlaun og ég er farinn í Félag eldri borgara að spila þá getum við notið þess og rifist um pólitík og annað að sjálfsögðu eins og við munum gera endalaust, en nýtum okkur tæknina til að vinna í því. Við erum til í að vinna með hæstv. ráðherra í nýsköpun á þessu sviði.