152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Margt hefur verið sagt um þetta mál sem ég held að sé ástæða til að fagna að sé fram komið frá hæstv. heilbrigðisráðherra, að hér sé ályktað um að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt. Þetta finnst mér vera göfugt og skynsamlegt markmið.

Mig langaði aðeins til að fjalla um þann lið sem vikið er að á fyrstu blaðsíðu þingsályktunartillögunnar þar sem er upptalning á nokkrum sjálfstæðum markmiðum en þar segir, með leyfi forseta: „Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ og meðal þeirra liða sem þar er fjallað um eru skilvirk þjónustukaup. Við vitum það jú öll að til heilbrigðisráðuneytisins fer drjúgur hluti fjármuna ríkisins og þetta er mikilvægt markmið í öllu samhengi við meðferð fjármuna ríkisins og kannski ekki síst í þessu tiltekna samhengi. Varðandi skilvirku þjónustukaupin þá hef ég aðeins verið hugsi yfir því atriði hvort fram fari eftirlit og þá af hálfu hvers með framfylgd á því að verkefni sem eru útboðsskyld samkvæmt lögum séu í reynd boðin út. Einn mikilvægur liður í því að þjónustukaup séu skilvirk og hagkvæm er sú lagaskylda að fram fari útboð. Það er auðvitað af ástæðu sem lögin krefjast þess að svo sé. Og ég velti þessu fyrir mér í samhengi við nýlegan úrskurð kærunefndar útboðsmála, nánar tiltekið í máli nr. 8/2021, þar sem niðurstaðan laut að innkaupum embættis landlæknis. Embætti landlæknis var samkvæmt lögum skylt að bjóða út innkaup á þróun hugbúnaðar, skylt að bjóða út þessi kaup og þetta verkefni á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta laut að svokölluðu heilbrigðisneti og þróun fjarfundalausna til notkunar á heilbrigðissviði. Ég hefði áhuga á að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra um þetta atriði af því að eitt er að við setjum okkur reglur í göfugum tilgangi og svo er hitt hvernig framkvæmdin er og þriðji póllinn er auðvitað eftirlit með framkvæmdinni.

Ég staldraði líka við klausu í greinargerðinni á bls. 4 þar sem fram kemur að í tengslum við breyttar áherslur þá hafi hugtakið velferðartækni orðið til, sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson var að víkja að rétt í þessu. Það er samheiti yfir fjölmargar tæknilausnir sem viðhalda eða efla virkni, þátttöku og lífsgæði notandans. Ég held að í ensku, með leyfi forseta, sé talað um „healthtech“ í þessu samhengi. Ég var að reyna að afla mér upplýsinga um það þegar við áttum í umræðu um þessa þingsályktunartillögu fyrir nokkrum dögum hvort það hefði verið unnið að einhverri stefnumótun eða hvort fyrir lægi einhver stefna hins opinbera varðandi heilsutæknina og sérstaklega þá í þessu samhengi sem við erum að ræða núna. Ég sé að þetta orð er hér notað og mér finnst jákvætt að sjá það. En eins og ég segi, ég átta mig ekki almennilega á því hvort þessi vinna sé í gangi af hálfu heilbrigðisráðuneytisins eða hvort slík stefna liggi þegar fyrir. Og þetta er auðvitað mikilvægt í því samhengi sem segir í greinargerðinni sjálfri, að í ljósi fjölgunar í hópi eldra fólks þá sé flestum orðið ljóst að það þurfi einmitt að nýta tæknina eins og kostur er, leita nýrra lausna og nýrra úrræða til að tryggja fullnægjandi þjónustu við aldraða. Í þessu samhengi þá þreytist ég ekki á að nefna þegar við erum að tala um tæknina að þar verðum við að hafa aðgengi í huga. Það er mikið réttlætis- og gæðamál fyrir fólk búsett á landsbyggðinni að stjórnvöld beiti þessu tæki mjög markvisst.

Í greinargerðinni er líka vikið að því að í stjórnarsáttmála um endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafi verið kafli um eldra fólk þar sem fjallað er um að skipuð verði verkefnisstjórn í breiðu samráði til að vinna að þeim markmiðum sem þar er lýst og fylgja eftir vinnu. Einstaklingurinn eigi að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. Auðvitað er það þannig með marga þætti þessarar grundvallarheilbrigðisþjónustu að þeir verða ekki unnir í gegnum tæknina. En ég held að það sé bara svo mikilvægt leiðarljós, mikilvægur vegvísir í allri nýsköpun, að líta í átt til tækninnar og hafa hana með af því að þessi þróun um breytta aldurssamsetningu í samfélaginu er augljóslega mikil áskorun fyrir samfélagið allt. En það má ekki gleyma því að í öllum svoleiðis áskorunum eru líka tækifæri og ég myndi vilja hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina alla til að vera með augun opin og vera dálítið kreatíf í lausnum; virkja allt það góða fagfólk sem við eigum hér starfandi, hvar sem það starfar. Ég held að það sé nú einn af lærdómum okkar úr heimsfaraldrinum að þetta tekst allt saman betur þegar við vinnum saman. Við sáum t.d. gott og gæfuríkt samstarf Íslenskrar erfðagreiningar við ríkið. Það þarf að losa aðeins um það sem mér hefur fundist vera allt að því tortryggni hins opinbera í garð sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Að síðustu langaði mig til að tala um einn af þeim þáttum sem helst í hendur við mikla fjölgun í hópi eldra fólks ef okkur tekst ekki að byggja upp stórt og öflugt kerfi samhliða, en það er auðvitað umönnunarbyrði aðstandenda, hvort sem er milli maka eða barna við foreldra. Ég veit t.d. að þetta er töluvert dóminerandi breyta um nýgengi örorku. Umönnunarbyrðin á Íslandi er svo mikil og svo þung að hún hefur því miður haft þessi áhrif. Þetta held ég að hljóti að skipta máli í allri stefnumótun, að horfa heildstætt á viðfangsefnin og áskoranirnar, horfa heildstætt á það hvernig útgjöldin og kostnaðurinn verður til, því að sannarlega kostar það ríkið háar upphæðir ef innviðirnir eru ekki sterkari en svo að við framköllum heilsufarsvanda aðstandenda með því að kerfið annar ekki sínu.

En ég vildi bara koma upp til að tala um þessi sjónarmið sérstaklega vegna þessarar tillögu til þingsályktunar, sem mér sýnist nú vera góð, og ég brýni hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða hvað varðar þessi skilvirku þjónustukaup.