152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:28]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það væri t.d. hægt að horfa aftur í tímann og athuga hvað er búið að gera undanfarin tíu ár við tekjuhluta ríkissjóðs. Það var ráðist í mjög almennar skattalækkanir sem voru settar upp í það samhengi að þær væru bara fyrir tekjulága einstaklinga en það fór miklu þverar á hópinn en bara þá. Það er búið að taka 20–30 milljarða kr. a.m.k. bara út úr skattkerfinu með almennum skattbreytingum. Þess utan er búið að afnema ýmis gjöld, sem er gott og vel, en það eru flöt gjöld líka sem aðrir kannski annars staðar í kerfinu hefðu getað greitt. Horfum á veiðigjaldið til að mynda, það skilaði 5 milljörðum í fyrra. Það hefur verið gert mat á því að auðlindarentan gæti legið á bilinu 30–70 milljarðar kr. á ári. Horfum á eignarskatta. Það er verið að tala um að framtíðin verði okkur erfið tekjulega séð vegna þess að fólki á vinnufærum aldri er að fækka hlutfallslega. Og hvað segir ríkisstjórnin í sinni fjármálastefnu, sem ég held að margir stjórnarliðar hafa ekki endilega tekið eftir sjálfir? Að framtíðin gæti falist í því að hækka vægi neysluskatta, sem er ekkert annað en ójöfnuðartól, að setja flata skatta í auknum mæli á fólk í stað þess að tala um eignarskatta, fjármagnstekjuskatta, í staðinn fyrir að koma með þingmál hingað inn í salinn, eins og stóð til að mynda í stjórnarsáttmála, til að loka ákveðnum götum í skattkerfinu sem eru þannig að þú getur greitt hér fjármagnstekjur í gegnum félög í staðinn fyrir að setja það fram sem laun. ASÍ talar um að 3–8 milljarðar gætu skilað sér með því að loka bara ákveðnum götum í kerfinu svo það fúnkeri rétt, það þarf ekki einu sinni að breyta lögunum í raun. Það er svo margt sem væri hægt að gera. Fólk lætur eins og það sé ekki verið að stunda einhverja undirliggjandi pólitík í þessari ríkisstjórn en það hefur bara heilmikið verið gert sem gerir það að verkum að svona aðgerðaáætlun eins og hér er í þinginu verður aldrei fram framkvæmanleg. Það liggur bara fyrir.