152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:33]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta á ekki bara við um hjúkrunarfræðinga, þetta er bara almennt í heilbrigðisstéttum, kvennastéttum, hlutverk sem áður voru ólaunuð og þess vegna var auðvelt að hafa launin lág. Þetta er vandamál og hægt að ræða það lengi en mig langar að nefna eitt konkret dæmi. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda í heilbrigðisþjónustu í dag vegna þess að við erum sífellt að vinna upp stórkostlegan halla í fjárfestingu, bæði í mannauði og aðstöðu en líka bara alvörufjárfestingu til að mynda á Landspítalanum og víða í sjúkrahúsþjónustu og þjónustu úti um allt land eftir hrun. Í staðinn fyrir að fara í alvöruátak er sífellt verið að nota einhverja litla plástra. Staðreyndin er í fyrsta lagi sú að það skiptir ekki máli hversu háum launum þú ert á; ef þér líður illa í vinnunni og ert undir allt of miklu álagi og þú hefur ekki góða aðstöðu þá mun það fyrir það fyrsta aldrei lagast. Í öðru lagi þá er ég mikill talsmaður þess að það sé reynt til að mynda að draga almennt úr álagi fólks með því að stytta vaktavinnutíma og það er t.d. leið til að draga úr launahöfrungahlaupi ef dregið er úr álagi fólks og vinnutíma í staðinn fyrir að fara í heildarlaunahækkanir. Vandinn er sá að það var farið af stað með betri vaktavinnutíma fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum, en hvað var gert? Það var ekki einu sinni fjármagnað. Það sem var gert var að tekið var rekstrarfé sem á að vera inni á Landspítalanum til að mæta aukningu í þjónustu, fólksfjölgun, fjölgun aldraðra, þjónustuþyngd, hjúkrunarþyngd — rúmir 1,5 milljarðar sem áttu að fara í að bæta aðstöðu Landspítalans — og það var sett í betri vaktavinnutíma. Það er ráðist í verkefni sem eru ekki einu sinni fjármögnuð. Það fyrsta sem væri hægt að gera væri að setja þessa 1,7 milljarða kr. inn í Landspítalann þar sem þeir eiga að vera.