152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:07]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þetta andsvar og verð að segja að ég er algerlega sammála öllu sem hann segir. Ég tilheyri nú sjálf kennarastétt, ég var kennari, en þar er um að ræða stétt sem er að eldast og það er stórkostlegt vandamál fram undan. Það má búast við því sama hjá hjúkrunarfræðingum, ég held að það sé alveg rétt. Það er líka annað; það eru fjöldatakmarkanir inn í hjúkrunarfræðideildina í Háskóla Íslands sem er alls ekki í samræmi við þá vöntun sem er í stéttinni. En burt séð frá því þá er það þessi flótti úr stéttinni sem er svo alvarlegur. Fólk gefst bara upp. Það er ekki hægt að setja ábyrgðina á umönnun fólks, umönnun aldraðra yfir á þessa stétt og segja: Þið eigið bara að láta ykkur hafa þetta. Það gengur ekki upp. Það þarf að laða fólk til starfa og það er gert með því að — já, það þarf að hækka laun. Það þarf að vera ágætisaðbúnaður sem fólk hefur. Það er alveg rétt að sem sagt var, þetta eru lágt launaðar kvennastéttir og það hefur áhrif á lífeyrisréttindi. Og það að hafa sífelldar peninga- og fjárhagsáhyggjur hefur áhrif á heilsu þannig að þetta er vítahringur og hugsanlega ávísun á fátækt til framtíðar. Það þarf þarf að tryggja umönnun núna í dag en það þarf líka að tryggja hana til lengri tíma. Við verðum að ná inn ungu fólki sem sér hag í því, fyrir sitt líf, að vinna við þessi störf sem eru svo nauðsynleg okkur öllum.