152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið við andsvarinu. Mig langaði aðeins að tala meira um það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi, sem er fátæktin og það hvernig við höfum á undanförnum áratug séð mikla aukningu í því hverjir lifa við fátækt og sárafátækt hér á landi. Við höfum líka séð mikla aukningu í fjölda öryrkja. Það er vel þekkt að það að búa við fátækt gerir það að verkum að fólk neitar sér um ýmislegt, neitar sér um heilnæman mat, neitar sér um læknisþjónustu, neitar sér um ýmislegt af því sem lyftir lífinu upp eða fær mann til að eiga góða heilsu. Það sem er að gerast með þennan hóp er að innan fárra ára verða mörg hver í honum öldruð og jafnvel á því tímabili sem þessi áætlun á að ná yfir. Mig langaði að heyra hvernig hv. þingmaður sér allan þann sparnað sem við höfum haft í því að sinna ekki þessum hópi koma niður á okkur í framtíðinni þegar þetta fólk þarf á öldrunarþjónustu að halda.