152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:28]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Wilhelm Wessmann fyrir mikilvæg orð. Það er líka mjög mikilvægt að við sem yngri erum hlustum á fólkið sem þarf á þjónustu að halda núna, svo að umræðan snúist ekki bara um það hvernig við upplifum að þörfin sé. Það er gríðarlega mikilvægt, sem hv. þingmaður nefndi, að vera í góðu samstarfi við aðila eins og Landssamband eldri borgara. Ég benti hæstv. ráðherra einmitt á það í síðustu viku að í þetta frumvarp vantaði algjörlega tengslin við fólkið sjálft, eða eins og stundum er sagt: „Ekkert um okkur án okkar.“

Mér finnst hafa verið mjög athyglisvert að fylgjast með þeirri umræðu sem verið hefur um þetta mál og mig langaði að nefna nokkur af þeim atriðum sem ég tók eftir. Hv. þm. Wilhelm Wessmann benti á gögn, að við þyrftum að byggja hlutina á gögnum. Þannig getum við tekið upplýstar ákvarðanir. Hluti af því sem þarf að gera þegar þessi stefna er búin til, og aðgerðaáætlun, er að byggja hana á góðum gögnum. Við þurfum að ræða það hvernig við ætlum að manna slíka aðstoð fyrir eldri borgara. Hvernig ætlum við að gera það? Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Það er ekki nóg að búa bara til falleg loforð sem virka í kosningum heldur þarf raunverulega að tryggja fólki góða framtíð. Hvernig náum við að gera fólki kleift að búa sem lengst heima hjá sér? En þegar fólk þarf að fara í einhver önnur húsnæðisúrræði þarf það líka að geta búið í sínum heimahögum. Við höfum talað um það hvernig tæknin og nýsköpunin getur skipt máli í að leysa ýmis vandamál og þar er fullt af tækifærum, jafnvel útflutningstækifærum.

Við höfum líka talað um hve mikilvægt sé að við séum í forvörnum núna, að við séum að tryggja að fólk sem ekki er komið á þennan aldur fái aðgengi að heilbrigðisþjónustu svo að það verði ekki eins og með fólk sem hefur ekki efni á því að fara til tannlæknis; að sjálfsögðu eyðileggjast allar tennurnar. Það er það sama með restina af líkamanum. Við þurfum líka að tækla fátækt meðal eldra fólks, það er mikilvægt verkefni sem við þurfum að fara í.

Að lokum hefur það komið skýrt fram að við þurfum að finna betur út úr því hvernig ríki og sveitarfélög annaðhvort skipta með sér verkum eða vinna betur saman, þannig að ekki sé alltaf verið að henda boltanum á milli. Þetta þurfum við að gera og þetta verðum við að gera. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er maður samvinnu og samráðs. Ég segi bara við hæstv. ráðherra: Ég er tilbúinn til að vinna með í því að finna lausnir, að vinna í hlutum sem þessu tengjast. Rétt eins og ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar: Áður en maður veit af er þessi þingsályktunartillaga farin að fjalla um mann sjálfan.