152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Alþingi ályktar að leiðarljós heilbrigðisstefnu fram til ársins 2030 verði að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt. Þessa stefnu samþykkti Alþingi á síðasta kjörtímabili. Við fengum um helgina fréttir af átakanlegum missi foreldra barns sem veiktist af Covid fjarri stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Barnið fékk ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir foreldra og lést. Ég votta fjölskyldunni samúð. Viðbrögð fulltrúa Framsóknarflokksins hafa hins vegar vakið furðu mína. Formaður Framsóknarflokksins sagði Framsókn vera að reyna að tryggja að fólk geti valið sér búsetu og að reyna að tryggja grunnþjónustu til að skapa öryggi. Formaður velferðarnefndar, hv. þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng í nokkuð sérkennilegu viðtali í Kastljósi í gærkvöldi og benti á að þar sem ekki væri þjónusta væri hægt að hringja á læknavaktina, þ.e. þar sem væri símasamband. Eftir nánast linnulausa stjórnarsetu Framsóknarflokks í ríkisstjórn er hvorki hægt að treysta á símasamband né grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Það skilja allir að það getur ekki verið læknir í hverri húsagötu en það er algjört lágmark að kerfið sé þannig byggt upp að heilbrigðismenntaður einstaklingur sem kemst ekki á staðinn eða hefur ekki þekkingu á viðfangsefninu hafi eitthvert að leita. Stjórnvöldum ber að skapa örugga innviði en það hafa þau augljóslega ekki gert. Ef Framsóknarflokknum er einhver alvara með búsetu um allt land, ef Framsóknarflokknum er alvara með veru sinni í ríkisstjórn, þá verða þau líka að gangast við þeirri ábyrgð sem þau bera. Þau fara með allt í senn heilbrigðismál, byggðamál og fjarskipti. Ég segi við Framsóknarflokkinn: Gyrðið ykkur í brók og farið að vinna í þágu þjóðar.