152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með umræðu um þetta áhugaverða mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það snýst fyrst og fremst um það að ríkisstjórnin hyggst skipa sjö manna stjórn yfir Landspítalann. Ég vil strax draga það fram að ég held að það sé mikilvægt skref, ég tel það vera rétt, en það er hins vegar útfærslan sem ég ætla aðeins að fara betur út í. Fyrst og fremst vil ég draga það fram að við sem viljum sterkt heilbrigðiskerfi byggjum það á því að hafa öflugar og sterkar opinberar heilbrigðisstofnanir, hvort sem það er á landsbyggðinni eða hér, en kjarninn í þessu opinbera gangvirki er að sjálfsögðu Landspítalinn sem er okkar þjóðarsjúkrahús. Þar verður allt að fúnkera. Þar verður spítalinn að finna að hann hafi stuðning yfirvalda og líka þeirra sem hér eru, en einnig að finna ákveðið aðhald, uppbyggilegt aðhald og uppbyggilega gagnrýni af því að verkefnin eru ærin og mismunandi sem spítalinn stendur frammi fyrir. Síðan er það hin hliðin á þessu sterka heilbrigðiskerfi, samhliða því að hafa þessar öflugu opinberu stofnanir, sem er að sjálfsögðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir. Ég er sannfærð um að þetta tvennt geti fúnkerað vel saman ef það er alveg skýrt hver ábyrgð hverrar stofnunar er og hvaða hlutverki hún á að gegna.

Þegar við lítum yfir fjárlögin og sjáum að Landspítalinn er með hátt í 100 milljarða í ríkisútgjöld, um 8% af því sem ríkið leggur út almennt til allra málaflokka, þá er eðlilegt að spurt sé: Hvernig verjum við þessu? Við sjáum nú náttúrlega best hvernig við höfum fjárfest, við höfum að mínu mati blessunarlega verið að fjárfesta í spítalanum, en það er aldrei nóg að gert. Það er líka þannig. Ég tel að það muni skipta mjög miklu máli fyrir starfsfólk Landspítalans, neytendur, þ.e. sjúklinga, og stjórnendur, hvort sem er í ráðuneytum eða inn á spítala, að fá nýjan spítala. Vonandi innan fjögurra, fimm ára. Ég heyri að það sé reyndar orðið núna 2027, það eru fimm ár í það. Það er svolítið langt en ég tel að það muni geta skipt sköpum fyrir Landspítalann.

Við þekkjum þessa umræðu og það kemur alveg ágætlega fram í greinargerðinni að þegar stjórnin var lögð niður 2007, m.a. á þeirri forsendu að ábyrgðin væri ekki nægilega vel skilgreind hjá þeim sem voru í stjórn spítalans þá, að hún væri ekki nægilega ljós, þá var reynt að samræma ábyrgðina og yfirstjórnina á Landspítalanum og setja það inn í sama umhverfi og forstöðumenn annarra ríkisstofnana störfuðu í. Gott og vel. Það var á þeim tíma og átti sér eflaust ákveðnar ástæður, allir að reyna að gera betur. En nú erum við að sjá það í ljósi aukins umfangs, bæði fjárhagslega hjá spítalanum en líka út frá starfsfólki og vinnuumhverfi, að það þarf betri og skýrari verkferla. Er það að skipa stjórn spítalans trygging fyrir því að við fáum að sjá betur hvernig fjármunum er varið? Við þekkjum þessa umræðu hér í þinginu og úti í samfélaginu. Það er ekki endilega samasemmerki á milli þess að setja fjármagn í ákveðna málaflokka, hvort sem það eru heilbrigðismál, menntamál eða annað, og að árangurinn sé síðan eftir því, eftir þeim fjármunum sem beint er á viðkomandi svið. Það er því eðlilegt að við spyrjum: Nýtum við fjármagnið eins vel og kostur er þannig að við getum slegið þessa mikilvægu skjaldborg, þessa heilbrigðisskjaldborg, þessa samfélagslegu skjaldborg, um þá sjúklinga sem þurfa á aðstoð spítalans að halda? Ég tel, eins og ég sagði áðan, að eins og sakir standa sé mikilvægt að við stígum þetta skref. Ég styð þessa ráðstöfun en um leið styð ég hana ekki að óbreyttu, ekki eins og hún liggur fyrir hér. Ég tek undir það sem hefur verið sagt, að það þurfi að skýra betur ábyrgðarsvið og heimildir stjórnar gagnvart ráðherra og líka aðkomu þeirra sem í stjórninni munu sitja, þar með talið starfsmanna. Þetta er rétt skref en það eru vankantar á þessu frumvarpi. Við þurfum að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur fram komið hér í þingsalnum og mér finnst hún vera réttmæt og málefnaleg. Þar er af ýmsu að taka. Hugmyndin sem hér býr að baki af hálfu ráðherra og ríkisstjórn er af hinu góða en þá er mikilvægt að reyna að teygja sig út til þingsins og til fólks sem mun veita umsagnir um málið og reyna að færa málið í betri og skýrari búning. Það er kannski það sem ég hefði viljað sjá, að þetta væri gert skýrar.

Varðandi kröfur til stjórnarmanna þá vil ég taka undir mörg þau orð sem hafa fallið hér í dag og áður í þessari umræðu. Það er af ýmsu að taka en hv. þm. Óli Björn Kárason hefur til að mynda komið inn á athyglisverða hluti og ég vil svolítið gera hans orð að mínum. Það er spurning hvort kröfurnar sem settar eru stjórnarfólki samkvæmt frumvarpinu geri vel hæfu fólki erfiðara fyrir að bjóða fram krafta sína í þágu spítalans. Ég tel að við þurfum að skoða þetta sérstaklega og ég veit að hv. velferðarnefnd mun gera það. Við þurfum auðvitað að gera kröfur um viðeigandi þekkingu og reynslu en á sama tíma þurfum við líka að horfa til stjórnarinnar, að mínu mati, sem ákveðinnar heildar þar sem er dýrmætt að ólíkir kostir, mismunandi reynsla og þekking komi líka við sögu. Við eigum að gera kröfur og við eigum að útbúa ákveðna ramma í kringum stjórnarhlutverkið en það má ekki vera svo að það útiloki þá sem gætu annars gert gagn og hjálpað til við að ná markmiðum okkar um að halda áfram að sækja enn frekar fram með framúrskarandi spítala. Það er að mínu mati líka mikilvægt að áhrif stjórnarfólks séu í samræmi við þá ábyrgð sem ætlast er til að stjórnin beri á skipulagi og sjálfum rekstri spítalans. Mér finnst þetta vera svolítið óvíst og nokkuð óljóst miðað við innihald frumvarpsins, til að mynda þegar kemur að ráðningu forstjóra og áhrifum stjórnarinnar þar. Þessu þarf að huga að svo hlutverk stjórnarfólks geti virkað sem skyldi. Ég vil taka m.a. undir athugasemdir frá Viðskiptaráði sem dregur m.a. fram stjórnskipulag sjúkrahúsa á Norðurlöndunum og það er áhugaverð lesning. Þau benda á að með þessu frumvarpi sé stjórnin einhvers konar millistig milli ráðherra og forstjóra. Stjórnin á síðan að gera tillögu til ráðherra um forstjóra að undangengnu mati hæfnisnefndar sem ráðherra á að skipa. Stjórnin á að taka ákvörðun um veigamikil atriði sem varðar rekstur og starfsemi spítalans, sem er reyndar ekki nægilega vel skilgreint, en ber síðan ekki ábyrgð á þessu í gegnum m.a. skipun forstjóra. Þetta er eitthvað sem ég beini til hæstv. ráðherra að ýta á nefndina að skoða sérstaklega, þ.e. að ábyrgðarsvið stjórnarinnar sé alveg skýrt hvað þetta varðar. Ég tel, af því að við erum að stíga þetta skref, að það fari betur á því að stjórnin beri þá þessa ótvíræðu ábyrgð að bæði að ráða og um leið reka forstjóra ef svo ber undir. Til þess að stjórnin geti raunverulega haft eftirlit með og stutt við starfsemi sjúkrahússins þá verða lögin sjálf og þær ráðstafanir sem við gerum hér, að ná betur utan um nákvæmlega þetta; ábyrgðarsviðið, eftirlitið, aðhaldið sem stjórnin verður að gæta. Þannig að ég vona að það verði skerpt á þessum heimildum til þess að ábyrgðarsvið stjórnarinnar verði skýrara og skarpara hvað þetta varðar. Ef við eigum að líta til Norðurlandanna, sem ég tel að yrði að mörgu leyti farsælt, þá þurfum við að ganga lengra í þessu frumvarpi og gera stjórn spítalans raunverulega að æðsta ákvörðunaraðila spítalans eins og Viðskiptaráð bendir á og ég vil taka undir þau orð sem þar koma fram.

Mig langar aðeins að fara yfir þátttöku starfsfólks. Ég tel þetta vera áhugavert og það verður svolítið spennandi að sjá hvernig þingið og nefndin mun vinna úr þessu. Eins og þetta er uppbyggt hér þá á starfsfólkið að skipa í stjórn en reyndar bara að hafa seturétt, fær engan atkvæðisrétt. Og þá spyr maður sig: Ef við erum að skerpa á ábyrgðarhlut stjórnar, eftirlitshlutverki stjórnar, hvaða hlutverki gegna þá starfsmenn? Er þá ekki bara, eins og bent hefur verið á, hreinlegast að segja: Gott og vel, starfsfólkið er inn í stjórninni en það er bara með áheyrn og ber þá ekki ábyrgð á stjórninni sem slíkri. Eða að fara einfaldlega hina leiðina, sem ég tel mjög fýsilegt að verði skoðað, að starfsfólk verði formlega skipað í stjórn með atkvæðisrétt en beri þá líka ábyrgð sem stjórnarfólk, með því sem fylgir að sitja í stjórn. Þetta þarf að vera skýrara, það þarf svolítið að klippa á þessa óvissu þannig að það verði alveg ótvírætt hvert hlutverk starfsfólksins er af því að það getur verið sett í svolítið ankannalega stöðu. Það má velta því fyrir sér hvort tækifæri starfsfólks til áhrifa verði of takmörkuð til að þekking þeirra, því að verið er að reyna að ná í þekkinguna, geti síðan nýst í sjálfri ákvarðanatökunni sem þarf að eiga sér stað innan stjórnar. Þetta getur bitnað bæði á rekstri spítalans og gæði stefnumótunar en það getur líka bitnað á starfsfólkinu sjálfu. Þannig að þetta tel ég að þurfi að skoða og það er auðvitað brýnt að starfsfólk eigi fulltrúa og það verði alla vega tryggt að það geti komið gagnlegum ábendingum og mikilvægum athugasemdum áleiðis og þannig staðið vörð um stöðu starfsfólksins sem vinnur gríðarlega mikilvægt starf í okkar þágu.

Það verður líka að gæta þess að starfsfólk komi að því að ýta áfram þeirri þróun sem við þurfum að sjá og spítalinn þarf að standa fyrir. Þetta er náttúrlega síbreytilegt umhverfi sem spítalinn stendur frammi fyrir og það þarf líka að taka ákvörðun um það, og ég held að væntanleg stjórn þurfi að taka ákvörðun um það, hvaða verkefnum spítalinn á að sinna og þora að forgangsraða. Það hefur t.d. skort á það, það er ekki alveg skýrt hver ábyrgðarhluti þess er sem tekur þá ákvörðun. Hvenær á t.d. að taka krabbameinsskimanir inn á Landspítala? Er það bara pólitísk ákvörðun, eins og var hér á síðasta kjörtímabili, að leggja niður ýmsa starfsemi sem til að mynda sjálfstætt starfandi heilbrigðisaðilar hafa sinnt og færa hana inn á spítalann? Ég held að þetta sé eitthvað sem muni vera stuðningur við spítalann, að það fari fram umræða innan stjórnar, og þar með fagleg aðkoma starfsfólksins, um það hverju spítalinn á að sinna og hverju ekki og hvernig við getum styrkt okkar þjóðarsjúkrahús þannig að það geti haldið utan um þá sjúklinga sem þurfa á aðstoð og aðhlynningu að halda.

Ráðherra hefur vísað til þess að fulltrúar starfsfólks kæmu með faglega rödd inn í stjórnina en ef svo er þá held ég að áhrif þeirra verði svolítið takmörkuð. Ég held að þingið verði enn og aftur svolítið að velta því fyrir sér: Eiga starfsmenn að bera stjórnskipulega stjórnarlega ábyrgð sem fylgir því að vera með formlega setu í stjórn eða er bara betra að þau hafi áheyrnarfulltrúarétt?

Ég hef gagnrýnt hér eða bent á tvo þætti, annars vegar valdmörk stjórnar og ábyrgðarhlutverk stjórnar gagnvart ráðherra og hins vegar aðkomu starfsfólks. Engu að síður er margt í frumvarpinu sem er þess virði að málið njóti framgangs hér á þingi, þó ekki fyrr en þingnefndin hefur farið vel yfir þessar athugasemdir og þessa að mínu mati málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað um hlutverk spítalans í okkar samfélagi. Ég held að þetta verði spennandi verkefni hjá velferðarnefnd en ég vil hvetja hana til þess, eins og ég segi, (Forseti hringir.) að eiga samtal við hagsmunaaðila en um leið svolítið að rýna í þetta samtal, sem mér finnst hafa verið áhugavert, um hvert raunverulegt hlutverk stjórnar spítalans eigi að vera.