152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel tvímælalaust að það verði að skoða mjög vel hvaða leið verður valin hvað varðar aðkomu starfsfólks og að nefndin verði að skoða mjög vel hvað hentar spítalanum best, bæði rekstrarlega og faglega. Ég hef trú á því að þetta tvennt fari saman, góður rekstur og gott faglegt starf. Þetta styður hvort við annað. Ég tel sjálfsagt mál að farið verði mjög vel yfir aðkomu starfsmanna, ábyrgð þeirra og hlutverk innan nýrrar stjórnar. Það þarf, eins og ég gat um áðan, að skerpa mun betur á því. Þá verða menn bara að tala hreint út. Annaðhvort vilja menn hafa starfsfólkið sem áheyrnarfulltrúa og þá á bara að þora að segja það alla leið eða að fara hina leiðina, sem ég tel að við eigum að skoða mjög vel, og veita þá starfsmönnum skýrt ábyrgðarhlutverk innan stjórnar.

Ég tel líka mikilvægt það sem ég sagði áðan, að við verðum samhliða — aðrir sem eru skipaðir í stjórnina, við megum ekki útiloka mismunandi hæfni og getu. Við megum ekki þrengja þetta þannig að það verði allt einsleitir einstaklingar sem mæta í stjórnina. Ég held að við verðum svolítið að halda því opnu til að ýta undir bæði rekstrarlegan og faglegan stuðning stjórnar.

Aðeins varðandi yfirlýst markmið: Já, það kann að vera að það mætti skerpa á þeim en ég tel líka, upp á það hverju við erum að ná fram, ekkert óeðlilegt að stjórnvöld hverju sinni, eftir að hafa horft upp á ákveðinn og viðvarandi vanda hjá Landspítalanum, reyni að hugsa hlutina aftur. Er verið að hugsa þá upp á nýtt? Ekkert endilega af því að það er að hluta til verið að hverfa aftur til þess tíma þegar stjórnin var lögð niður. Gekk það eftir á sínum tíma, 2006 eða 2007, þegar stjórnin var lögð niður, að bæta starfsemi spítalans? Ekkert endilega.

Ég held að ef við förum til baka þá þurfum við um leið að segja: Ekki fara alveg sömu gömlu leiðina, heldur segja miklu skýrar (Forseti hringir.) hver ábyrgð nýrrar stjórnar er. Ég tel tvímælalaust að skoða verði hvort ábyrgð nýrrar stjórnar (Forseti hringir.) verði m.a. að ráða nýjan forstjóra, að bera ábyrgð á því.