152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún kom inn á mjög áhugaverð atriði, t.d. varðandi það að stjórnin hefur ekkert boðvald yfir forstjóra og líka að eðlilegt væri að stjórn væri ráðgefandi ráðherra við ráðningu. Svo að sjálfsögðu þetta með fulltrúa starfsmanna, að þeir hafi ekki atkvæðisrétt.

Ef ég þekki það rétt þá hefur hv. þingmaður reynslu úr fyrirtækjaheiminum og mig langar að spyrja hana varðandi það. Það kemur fram í greinargerðinni að mikilvægar, óvenjulegar ráðstafanir í starfsemi stofnunar skuli bera undir stjórn og varðandi mikilvægar ráðstafanir er vitnað í hlutafélagalögin, 68. gr. Þar er talað um eftirlit með bókhaldi og meðferð fjármuna. Svo er talað um óvenjulegar ráðstafanir sem er mjög áhugavert. Og hvað er talið þar upp? Jú, það er að spara, stöðva framkvæmd tiltekinna aðgerða; sparnaðarráðstöfun. Annað dæmi er að loka deildum, það er óvenjuleg ákvörðun; önnur sparnaðarákvörðun.

Síðan segir líka að forstjóri beri eftir sem áður ábyrgð á rekstrarútgjöldum og rekstrarafkomu stofununar í samræmi við fjárlög og fjármuni. Ef tekin er mikilvæg ákvörðun í stjórn sem varðar rekstrarútgjöld og rekstrarafkomu stofnunarinnar bera þá bæði forstjóri og stjórn ábyrgð á því? Ég get ekki skilið það öðruvísi en það stangist á og vafamál hvort stjórnin beri ábyrgð á sparnaðarákvörðuninni að loka deild eða forstjóri.

Annað líka — og ég veit að í fyrirtækjaheiminum er þetta ansi skýrt — að ef það eru samstarfsörðugleikar milli forstjóra og stjórnar hvernig á að leysa þannig vandamál? Þarf þá ekki að ráðherra að grípa inn í? Við getum lent í svo miklum flækjum ef við tökum bara mikilvægar ákvarðanir sem eru í fyrirtækjaheiminum teknar af stjórn. En það virðist vera að mikilvægar ákvarðanir varðandi rekstrarútgjöld og rekstrarafkomu séu teknar á báðum stöðum, bæði af forstjóra og stjórn.