152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[18:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Dagbjarti Gunnari Lúðvíkssyni. Ég held að ég hafi nú ekki verið að gera neinum neitt upp í þessari umræðu. Ég var einfaldlega að leggja áherslu á hvaða skoðun ég hefði á málinu og svara því hvort ég væri staðfastur í málinu eins og það er lagt upp með. Já, ég er það. Ég get bara notað tækifærið og ítrekað það. Ég held að það sé einhver misskilningur að þetta sé bannað í háskólum. Ef maður les alla lagagreinina til enda þá er það ekki svo. Ég get ekki annað en hvatt þingið og hv. velferðarnefnd til að skoða kjarnaefni, meginefni frumvarpsins; aldurstakmörkin, auglýsingabannið, merkingarnar á íslensku í þeim megintilgangi að takmarka notkun barna og unglinga. Það er frumvarpið eins og það liggur fyrir mér. En það eru auðvitað þarna atriði sem þarf að skoða í samhengi við það (Forseti hringir.) sem lagt er til í frumvarpinu og þetta umdeilda atriði varðandi bragðefnin. (Forseti hringir.) Það eru fjölmargar þjóðir aðrar, og það er farið inn á það í greinargerð, sem hafa einmitt þurft að takast á við það.