152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir frumvarpið og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra vill aðeins láta gott af því leiða. Það er að sjálfsögðu lýðheilsusjónarmið að tryggja að fólk hætti að reykja. Sem betur fer hefur margt breyst, ekki bara á síðustu áratugum heldur jafnvel á síðustu árum. Markmið frumvarpsins er að mörgu leyti gott en aðferðafræðin, eins og bent hefur verið á, er kannski ekki alveg nógu vel úthugsuð og jafnvel ekki nógu vel vísindalega studd. Ástæðan fyrir því að við höfum verið að berjast gegn reykingum í tugi ára er sú að tóbak veldur krabbameini. Það er ekki nikótínið sem veldur krabbameini, það eru öll hin efnin. Á hinum merka vef Vísindavefnum getur maður lesið sér til um nikótín. Þar segir að nikótín sé aðeins eitt fjölmargra efna sem finnist í tóbaki, það sé vanabindandi en það sé hins vegar mun minna skaðsamt en önnur efni sem þar finnist. Þeir sem nota tóbak verði hins vegar að neyta þeirra efna með nikótíninu, hvort sem þeim líki betur eða verr.

Með öðrum orðum, nikótínið var notað til að fá okkur til að reykja. Það hefur verið skoðað mjög vel hvaða áhrif nikótínið hefur. Það hefur örvandi áhrif á líkamann. Og já, það getur verið banvænt ef þú tekur sem samsvarar 50 mg af því. Bara svona til að gefa ykkur hugmynd þá eru það um 50 sígarettur, og þá getur það verið banvænt. Dönsk heilbrigðisyfirvöld voru krafin svara um það hvaða vísindalegu gögn og rannsóknir lægju að baki því að nikótín væri skaðlegt og þau fjarlægðu þær setningar af sínum heimasíðum.

Það er margt gott í frumvarpinu en ég held að það sé nokkuð ljóst að vinsælasta grein dagsins í frumvarpinu er b-liður 9. gr., það sem stendur, með leyfi forseta:

„Óheimilt er flytja inn, framleiða og selja nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu þessa ákvæðis.“

Mér fannst dálítið athyglisvert að fletta upp í greinargerðinni um 9. gr. sérstaklega, en þar stendur:

„Rannsóknir sýna að bragðefni, sérstaklega nammi- og ávaxtabragð, spili stóran þátt í því hversu vinsælar rafrettur eru meðal barna og ungmenna og rök falla til þess að telja að hið sama eigi við um vinsældir nikótínpúða hjá ungmennum.“

Rök — hvaða rök? Það eru engin rök talin upp í greinargerðinni. Það eru engar rannsóknir sem sýna að börn leiti í nikótínpúða heldur eru færð rök fyrir því, af því að sýnt er að þetta hefur gert það vinsælla hjá börnum að nota rafrettur. Já, mér finnst það ekkert skrýtið að það hafi kannski orðið vinsælla hjá börnum að nota rafretturnar ef þær voru með einhverju bragði, enginn hefur áhuga á því sem er bragðlaust. Það var kannski þannig þegar ég var unglingur, og aðrir hv. þingmenn, við sem erum af eldri kynslóðinni, að þá var það eina sem var í boði vodki eða brennivín með engu bragði. Unglingarnir í dag, þegar þeir prófa áfengi, fá þeir sér ekki vodka í kók, þeir prófa eitthvað sem er með ágætisbragði. Það sama á við um flestan mat og flesta aðra hluti. Við viljum hafa bragð af hlutunum, sér í lagi ef þeir eru vondir. Ég drekk t.d. ekki bjór af því að mér finnst bragðið vont. Það hefur enginn búið til nammibjór, svo ég viti til, til að hvetja mig til að drekka hann.

Það er þetta með bragðið en við þurfum samt líka að hugsa um lýðheilsuna. Málið er nefnilega það að á síðastliðnu ári, eftir því sem nikótínpúðarnir hafa orðið vinsælli, hafa rafrettur orðið mun minna vinsælar. Rétt eins og þegar rafretturnar komu þá hætti fullt af fólki að reykja. Ég ákvað að horfa í kringum mig hér á hinu háa Alþingi og sjá hve margir hv. þingmenn fara út að reykja. Ekki mjög margir, þeir eru einna helst af elstu kynslóðinni. En hversu margir hér inni nota nikótínpúða? Ja, það væri gaman að gera fyrirspurn um það. Ég veit bara ekki hvernig ég get spurt alla þingmenn. En ég get alveg fullyrt að það er vel yfir helmingur hér. Það er nefnilega þannig, eins og hv. þingmaður sagði hér áðan, að þetta hefur hjálpað fólki til að hætta að reykja. Nikótínpúðarnir, samkvæmt tölfræði frá Noregi og Svíþjóð, leiða ekki til þess að fólk fari að nota rafrettur eða fari að reykja þvert á móti heldur það sig við nikótínpúðana.

Það hefur verið rætt hér fram og til baka hvaða bragðtegundir það eru sem börn myndu sækjast í. Nammibragð, lakkrísbragð eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan — hvað með myntu, eina af vinsælli bragðtegundunum hjá alþingismönnum hér á hinu háa Alþingi, á að banna hana? Persónulega finnst mér mjög gott að fá mér myntu út í romm og búa til mojito-kokteilinn. Nei, það er mynta, það gæti verið hættulegt. Þetta er góð spurning: Hvar eigum við að draga línuna þegar kemur að bragðinu? Og ég tel að ef við förum í að banna einhverjar ákveðnar bragðtegundir muni það einfaldlega leiða til þess, nákvæmlega eins og gerðist með neftóbakið sem var flutt inn erlendis frá, og mátti ekki selja hér, að það varð bara svartamarkaðsbrask úr því og fólk var að kaupa þetta og flytja þetta inn og smygla þessu. Við værum þá að tala um að fólk væri að smygla inn vöru sem væri lögleg nema að bragðið væri ekki eitthvað sem hæstv. heilbrigðisráðherra, ekki endilega þeim sem hér situr núna, heldur bara þeim sem situr í því embætti, fyndist passlegt fyrir börn.

Við þurfum að fara að hugsa út í það hvar við drögum mörkin. Hvað er gott lýðheilsulega versus það hvað er of mikil forræðishyggja. Það er margt sem orsakar álag á heilbrigðiskerfið okkar mun meira en notkun nikótínpúða, t.d. notkun sykurvara. Ætlum við að banna allar sykurvörur af því að þær eru slæmar? Eða eigum við að banna te með ávaxtabragði af því það er koffín í því sem er líka ávanabindandi? Ég ætla ekki einu sinni að fara út í bragðtegundir af orkudrykkjum. En ég fletti því upp á vef Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að þar eru 207 tegundir áfengis sem eru með ávaxtabragði — ætlum við að banna þær? Ég tek undir orð eins hv. þingmanns hér á undan: Þegar kemur að forvörnum er miklu mikilvægara að setja fjármagn í fræðslu, að tækla aðgengi eins og gert er í mörgum öðrum greinum þessa frumvarps og einnig að herða þau göt sem eru í því hvernig auglýsa má þessa vöru. Daglega sjáum við auglýsingar frá innflutningsaðilum og söluaðilum vegna þess að þeir auglýsa ekki endilega vöruna sjálfa heldur hvar þeir eru til húsa eða hvar búðirnar séu.

Virðulegi forseti. Ég skil vel þá meiningu sem er á bak við margt í þessu frumvarpi. Það er margt gott í því, alls ekki misskilja það, hæstv. heilbrigðisráðherra. En við þurfum að hugsa um nikótínpúðana, aðrar nikótínvörur, nikótíntyggjó og ýmislegt annað, sem skaðaminnkunartæki, gegn því að fólk sé að reykja, gegn því að fólk sé að ánetjast tóbakinu í stað þess að fara í forræðishyggju sem gengur út á að hægt sé að banna ákveðnar tegundir, bara af því að okkur finnst þær ekki viðeigandi. Það væri t.d. slæmt ef við fengjum ekki að prófa nýjar bragðtegundir af ís á hverju ári af því að þær væru bannaðar. (Gripið fram í: Hvað ertu að leggja til?) [Hlátur í þingsal.]

Ég er farinn að halda að kannski sé kominn tími til að hætta. Ég vona bara að hv. velferðarnefnd hlaupi undir bagga með hæstv. ráðherra og lagfæri þær greinar sem hér eru inni sem ganga hreinlega of langt og að við fáum þá áfram að njóta mismunandi vara með hinum ýmsu bragðtegundum sem fyrirfinnast.