152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[19:21]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni fyrir hans ræðu og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina áðan. Það er stundum talað eins og sumar þjóðir hafi það þannig að það er allt bannað sem ekki er leyft, aðrar kjósa að hafa allt leyfilegt sem ekki er beinlínis bannað. Við erum að reyna að feta einhverja stigu sem við sem þjóð fellum okkur við. Hér er talað um brögð og hér tel ég að krókur á móti bragði þurfi hugsanlega til að koma. Ég er alveg sammála því að við eigum ekki að vera að ala upp ungfíkla hér ef mögulega verður rönd við reist. Við eigum heldur ekki að fara að þrengja þannig að fullorðnu fólki að það geti hvorki fengið sér ávaxtabjór eða ávaxtagos eða hvað sem það nú væri. Ég held að hæstv. ráðherra verði ekki sakaður um að hlusta ekki. Hann situr hér og hlustar og meðtekur og ég held að við eigum að vera þakklát fyrir að hann vonandi tekur með sér heim í ráðuneyti það sem hér hefur verið sagt og bent á og sömuleiðis að velferðarnefnd muni lagfæra þetta. Ég legg til og spyr hv. þm. Gísla Rafn hvort væri ekki klókt að flétta saman blöndu af öflugum forvörnum og öflugri vitundarvakning um skaðsemina. Ég bendi á þann gríðarlega árangur sem við náðum í því að sporna við reykingum. Íslendingar voru stórreykingarmenn á öllum aldri þar til fyrir örfáum árum. Hinn ágæti rithöfundur og baráttumaður, Þorgrímur Þráinsson, leiddi hér árum saman mjög effektífa baráttu. Hann vísaði m.a. til þess hversu púkalegt væri að reykja. Unga fólkið vill ekki stunda það sem þykir púkalegt. Hann talaði um hvernig æðaþrengsli verða til við reykingar og slagorðið Reykingar drepa tittlinga (Forseti hringir.) virkaði örugglega á marga. Þannig að ég held að flétta vitundarvakningar (Forseti hringir.) og þessa frumvarps sé leiðin áfram.