152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

450. mál
[20:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann, sem er nú löglærður, út í þær skilgreiningar sem eru í þessu frumvarpi, vegna þess að það er grundvallaratriði til að lög virki að allt sem þau segja sé skýrt og vel skilgreint. Hér hefur verið talað um nammi- og ávaxtabragð, dálítið meira um ávaxtabragðið en nammibragðið af því að nammibragð er eiginlega enn opnari tékki. Í Harry Potter bókunum eru fjölbragðabaunir Berti Botts. Þær eru ekki bara skáldskapur, það er hægt að kaupa þær úti í búð í dag og í þeim pökkum er baun með moldarbragði sem er einmitt bragðið af íslenska neftóbakinu. Ég velti fyrir mér: Gengur svona óræð og óskýr skilgreining í lagasetningu?

Síðan varðandi, hvað eigum við að segja, jafnræði? Eða nei, köllum við þetta ekki lögjöfnun? Hér er skilgreint hvað er nikótínvara og það er vara sem er alveg eins og tóbak að öðru leyti en því að hún inniheldur ekki tóbakstrefjarnar. Hún inniheldur virka efnið úr tóbaki. Ef ég væri Philip Morris eða einhver álíka skíthæll myndi ég sjá mér leik á borði og láta reyna á það fyrir dómstólum hvort það gangi að — nei, ég myndi væntanlega ekki gera það því að ég væri að skjóta mig í fótinn. En gengur upp að banna ávaxtabragð í þessari nikótínvöru en leyfa mentólsígarettur sem er önnur nikótínvara sem er skilgreind út úr þessum lögum? Mér finnst þetta alla vega mjög flókin lína að draga.