152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mér þótti það skrýtið að sjá í fjölmiðlum eftir lokun markaða í gær að hefja ætti sölu á Íslandsbanka fyrir 50 milljarða og að það ætti bara að gerast yfir nótt með engum fyrirvara. Efnahags- og viðskiptanefnd er nýbúin að senda frá sér umsögn í málinu og þar kemur m.a. fram tillaga Bankasýslunnar um að horfa eigi til þess að selja bankann í áföngum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Síðan kemur einnig fram að Seðlabankinn eigi að skoða jafnræði bjóðenda. Ég spyr: Var þetta gert? Af hverju bar þetta svona brátt að? Voru hagfelld skilyrði til staðar í gær? Og hverjir voru tilbúnir til að kaupa með svona stuttum fyrirvara? Hverjir fengu að vita af þessari sölu og gátu undirbúið kaup? Sátu allir við sama borð? Af hverju var selt á genginu 117 þegar skráð gengi var 122? Þarna myndaðist 5 milljarða hagnaður bara strax.(Forseti hringir.) Ég spyr: Af hverju er verið að tala um einhverja tilboðsaðferð þegar seljandi gefur upp tölur sem viðmiðunarverð? Ég er ekki að sjá að eitthvert gagnsæi hafi verið viðhaft í þessu.

(Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BÁ): Forseti bendir á að hv. þingmaður óskaði eftir að taka til máls um fundarstjórn forseta.)