152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil nú segja það í samhengi við þetta mál að ég er alveg hjartanlega sammála því að það eigi að selja Íslandsbanka og reyndar Landsbankann líka. Ég fagna því að það sé verið að stíga virk skref til þess að gera það. Mér finnst ekki að ríkið eigi að vera sterkur leikandi á þessum samkeppnismarkaði, bara alls ekki. Hins vegar hljótum við auðvitað að velta því fyrir okkur hvernig þetta er gert og án þess að ég ætli að ganga eitthvað langt í því að fullyrða nokkurn skapaðan hlut þá held ég að umræðan í samfélaginu eftir þessi tíðindi í gær kalli á að við verðum hreinlega upplýst um það sem fyrst hvað þarna liggur að baki, hvernig þetta var gert, hvernig menn voru valdir, ekki síst líka hverjir keyptu og hvers vegna kjörin voru eins og þau voru.

Að öðru leyti vil ég fagna því og vona að umræðan fari ekki að snúast um það hvort það eigi yfir höfuð að selja hlutinn eða ekki. Það er afstaða mín að ríkið eigi ekki að vera sterkur leikandi á þessum markaði.