152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hérna upp til að endurtaka og styðja það að þingleg umræða fari fram um þessa sölumeðferð. Mig langar í ljósi orða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar að vísa hér í álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um söluna, sem mér finnst menn ekki alveg vera samhljóma um, og framkvæmd þessarar sölu. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra og Bankasýslan fylgist grannt með þróun mála og ákvarði tímasetningu sölunnar með hliðsjón af því markmiði að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af sölu hlutanna.“

Að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af sölu hlutanna. Miðað við þær fregnir sem við fengum í gær var bara tekin ákvörðun um að hámarka þær ekki. Hvernig fer þetta tvennt saman? Þetta er eitthvað sem við þurfum að fá svar við í þinglegri umræðu. Mér finnst þetta ekki koma heim og saman við það sem sagt var og ég skil ekki alveg hvers vegna hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar tekur undir þessa meðferð vegna þess að hún er ekki í samræmi við það álit sem hún skrifaði undir 9. mars síðastliðinn.