152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022 sem er að finna á þskj. 659. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum sem leiða af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð. Eins og öllum er kunnugt um þá var tilkynnt um breytingar á skipan Stjórnarráðsins samhliða myndun nýrrar ríkisstjórnar þann 28. nóvember 2021 og að mati ríkisstjórnarinnar er mikilvægt að stofnanir ríkisins staðni ekki, heldur breytist í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Markmiðið nú er að Stjórnarráðið þróist í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar um samkeppnishæft og sjálfbært samfélag og sé í stakk búið til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem fram undan eru. Um þetta hefur í sjálfu sér verið fjallað í öðru þingmáli en hér erum við að leiða fram breytingar á fjárlögum sem nauðsynlegar eru vegna þess sem áður hefur verið ákveðið um þessi efni. Sama dag og ríkisstjórnin var mynduð tók gildi forsetaúrskurður nr. 125/2021, þar sem voru gerðar breytingar á skiptingu stjórnarmálefna miðað við óbreytta skipan ráðuneyta. Í samræmi við þann forsetaúrskurð samþykkti Alþingi færslu fjárheimilda milli málefnasviða og málaflokka í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022, við 3. umr. þess. Gerð er grein fyrir þeim breytingum í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar, auk þess sem breytingarnar voru nánar sundurliðaðar eftir ríkisaðilum og verkefnum í sérstöku yfirliti í fylgiriti með fjárlögum fyrir árið 2022.

Með vísan til 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands ályktaði Alþingi að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, með þingsályktun nr. 6/152 þann 27. janúar síðastliðinn. Í samræmi við afgreiðslu Alþingis öðlaðist gildi forsetaúrskurður nr. 5/2022 um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti þann 1. febrúar 2022. Sama dag öðlaðist jafnframt gildi nýr forsetaúrskurður, nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, samanber 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Báðir úrskurðirnir fólu í sér talsverðar breytingar frá fyrri skipan. Þetta er svona bakgrunnurinn eða baksvið þessa máls, en ég ætla nú að víkja að meginefni frumvarpsins.

Við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, skal flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta að því marki sem eðlilegt er talið að teknu tilliti til umfangs verkefna og aðstæðna, skv. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Viðkomandi ráðuneyti skulu samkvæmt sömu lagagrein gera með sér samkomulag um flutning fjárheimilda og starfsmanna milli ráðuneyta á grundvelli viðmiða um fjárhæðir sem fylgja skuli verkefnum, m.a. um kostnað vegna stöðugilda og málafjölda, með hliðsjón af viðmiðum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið setur.

Þetta frumvarp er lagt fram á grunni yfirferðar á breytingum á fjárheimildum sem leiða af framangreindum forsetaúrskurðum og samkomulagi milli ráðuneyta í hverju tilfelli, auk þess sem það byggir á frekari greiningu á tilteknum málum sem ráðast þurfti í eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár.

Í frumvarpinu eru samanlagt gerðar tillögur um millifærslur og breytta staðsetningu á fjárheimildum sem nema rúmlega 120 milljörðum kr. en ekki er um að ræða aukningu á heildargjöldum og breytingarnar hafa því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Umfangsmestu breytingar í þessu frumvarpi endurspeglast í stofnun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis annars vegar og menningar- og viðskiptaráðuneytis hins vegar. Samtals er gert ráð fyrir flutningi rúmlega 85 milljarða kr. fjárheimildum til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og 28 milljarða kr. fjárheimildum til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Vegna tilfærslu stjórnarmálefna á milli annarra ráðuneyta er gert ráð fyrir flutningi um 7 milljarða kr. fjárheimilda í frumvarpinu.

Breytingar frumvarpsins á fjárheimildum málefnasviða og málaflokka eru fyrst og fremst af tvennum toga. Annars vegar er verið að gera breytingar á númerum og heitum fjárlagaliða og viðfanga við stofnun nýrra ráðuneyta og flutning verkefna milli þeirra. Slíkar breytingar fela einungis í sér að staðsetning fjárheimilda breytist og færast þær eftir atvikum á milli málefnasviða, málaflokka og ráðuneyta. Hins vegar er um að ræða flutning fjárheimilda milli ráðuneyta þar sem verið er að skipta upp og færa hluta af fjárveitingum á milli aðalskrifstofa og verkefna ráðuneyta til samræmis við breytta verkaskiptingu.

Þessu frumvarpi, eins og hér hefur verið lýst, er einungis ætlað að endurspegla á tæknilegan hátt þær breytingar sem orðið hafa á Stjórnarráðinu, þ.e. að aðlaga framsetningu fjárheimilda að breyttri skipan ráðuneyta. Með þessu fjáraukalagafrumvarpi er því verið að tryggja að fjárheimildir málefnasviða, málaflokka og ráðuneyta fyrir árið 2022 verði í fullu samræmi við breytta skipan Stjórnarráðsins sem tók gildi 1. febrúar. Rétt er að ítreka að í frumvarpinu eru ekki gerðar tillögur um efnislegar breytingar á fjárheimildum málefnasviða og málaflokka ráðuneyta að öðru leyti.

Aðeins um síðastnefnda atriðið, þá vil ég láta þess getið að ég fæ stundum spurningar um það hvort eitthvað sem komið hefur upp gefi ekki tilefni til þess að setja í fjárauka sérstaka fjárheimild á þessum tímapunkti og nota þá kannski ferðina með þessu frumvarpi. Því er til að svara að það er einungis við alveg sérstakar aðstæður sem við höfum talið ástæðu til að koma með nýjar fjárheimildir í fjárauka á fyrri hluta árs. Hér verður að hafa í huga að við erum annars vegar með mjög stóran varasjóð og hins vegar erum við með varasjóð inn á málaflokkunum. Svo verður að hafa í huga að við erum mjög skammt á veg komin við framkvæmd fjárlagaársins þannig að það þurfa þá að vera einhver verulega stór tilefni til þess að við getum fullyrt á þessum tímapunkti ársins að þegar við nálgumst lok fjárlagaársins verði einfaldlega ekki til staðar fjárheimildir vegna einhverra mála sem við höfum áhyggjur af. Þá er rétt að hafa í huga í því sambandi að það má gera ráð fyrir því við þær aðstæður að það komi einfaldlega fram fjáraukalagafrumvarp að hausti eða undir lok árs. Ég get ekki séð að neitt slíkt hafi komið upp á, jafnvel ekki þetta stríð, jafnvel ekki aukin koma flóttamanna til Íslands, eða önnur atriði sem hafa mögulega kallað á aukin útgjöld. Ekkert af þessu er af þeirri stærðargráðu að það sprengi þann viðbúnað sem við höfum fyrir í fjárlögum.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, mælist ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.