152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:15]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hæstv. fjármálaráðherra veit greinilega hvað brennur á fólki vegna þess að ég ætlaði einmitt að spyrja út í þær aðstæður sem mér þykja bara frekar ótrúlegar í dag sem samt er ekkert minnst á í þessum fjárauka. Það stefnir í 7% verðbólgu. Við erum að sjá stærstu mannúðarkrísu í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld. Lönd eru að búa sig undir að taka við metfjölda flóttafólks, orkuverð, gríðarlegur þrýstingur á hrávörum er í pípunum. Hér er talað um að það þurfi ekkert að samþykkja nýjar fjárheimildir vegna þess að í rauninni sé bara ekkert ástand. Þetta er algjörlega á skjön við það sem við sjáum í langflestum velferðarríkjum í kringum okkur og raunar er það svo í lögum um opinber fjármál að það ber einmitt að taka mið af því að ráðast í aðgerðir tímanlega eða a.m.k. nógu tímanlega til að skapa ekki allt of mikinn þrýsting síðar meir. Því hef ég áhyggjur af því að hér sé verið að fara á skjön við þau tilmæli í lögum um opinber fjármál, vegna þess að við munum samþykkja hér hærri fjárauka í haust fyrir vikið.

Ég ætla að fá að varpa þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvaða verðbólguprósenta það sé sem hreyfi við honum. Hvenær er ástandið orðið nógu slæmt til að grípa inn í? Er það 10%? Hver þarf staðan að vera á hrávörumörkuðum hvað varðar orkuverð og svo bara almennt í þessari mannúðarkrísu sem við stöndum í til þess að það sé nógu langt gengið til að skapa ástand fyrir auknar fjárheimildir?