152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því að við erum hér með í höndunum frumvarp sem var lagt fram í febrúarmánuði og það er mjög skammt liðið á árið á þeim tímapunkti til þess að fullyrða að við höfum ekki nægar fjárheimildir til þess að komast í gegnum árið. Við höfum mjög stóran almennan varasjóð og aðra varasjóði til þess að grípa til og svo eigum við alltaf möguleikann undir lok árs, í haust, til að koma með fjáraukalög ef nægilegt tilefni er til.

Varðandi verðbólguna vil ég vekja athygli á því að ef við tökum húsnæðisliðinn út úr verðbólgumælingum þá erum við að horfa á um 4% verðbólgu að undanförnu. Fyrir alla þá þar sem ekki reynir á áhrif húsnæðisliðar vísitölumælingar þá mælist dagsdagleg breyting á neysluvörum um 4%. Það eru engin boðaföll í sjálfu sér sem eiga sér stað þar og sérstaklega ekki þegar haft er í huga hversu sterk staða heimilanna er í sögulegu samhengi samkvæmt nýrri lífskjararannsókn. Ef við veltum fyrir okkur hvaða áhrif verðbólgan hefur á afkomu ríkissjóðs eða stöðu einstakra fjárheimilda þá er það nú dálítið vandasamt verk að þræða sig í gegnum. Ég myndi ætla að tekjuhliðin lyftist eitthvað og á sama tíma verði meiri þrýstingur á gjaldahliðinni. Við getum gert ráð fyrir því að kostnaðarverðshækkanir verði einhverjar en við höfum enn ekki séð einhver slík tilefni að ástæða sé til að fara fram á viðbótarfjárheimildir.