152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það fordæmi sem hér er verið að setja. Við afgreiðslu fjárlaga í desember sl.. minnir mig að gert hafi verið ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með tæplega 170 milljarða kr. halla. Það er krefjandi tími fram undan fyrir ríkið og allan almenning. Við þekkjum hver veruleikinn er um verðbólgu og vaxtahækkanir og hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um það opinberlega að nú þurfi að vanda sig í opinberri fjármálagerð og áætlanagerð til næstu ára. Var í því ljósi skynsamlegt að fjölga ráðuneytum þannig að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er með þessari breytingu orðin sú fjölmennasta sem verið hefur við völd í meira en áratug? Var þetta gott fordæmi af hálfu hæstv. fjármálaráðherra við þær aðstæður sem nú eru uppi? Er þetta til marks um ábyrgan ríkisrekstur?