152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er umræða sem á vel rétt á sér, að spyrja: Hversu stórt á Stjórnarráð vera? Hversu margir eiga ráðherrarnir að vera? Það varð niðurstaða okkar formanna flokkanna eftir stjórnarsáttmála okkar að við gætum náð besta jafnvægi í okkar áherslum með því að fjölga ráðherrum um einn. Við vorum sömuleiðis þeirrar skoðunar, eftir að hafa starfað saman í nokkur ár, og mörg verið lengur en eitt kjörtímabil í Stjórnarráðinu, að það væri orðið tímabært að stokka aðeins upp spilin, það mætti vel sjá ákveðna veggi falla og hugsa hlutina upp á nýtt. Ég verð að segja að enn sem komið er hef ég ekki séð neitt sem sýnir fram á að við höfum haft rangt fyrir okkur, frekar hitt, að það hafi verið ákveðinn ferskleiki og það hafi komið dálítið ferskur andblær með uppstokkun. Hún hefur hins vegar kostað tíma og það er rétt sem hv. þingmaður segir, hún kostaði líka peninga. Þetta eru 400–500 millj. kr. á ári, eins og við höfum kynnt þetta, í fjárlögum upp á rétt um 1.000 milljarða. Í því sambandi þá myndi ég vilja nálgast þetta þannig að ef stjórnkerfið virkar ekki ofan frá þá held ég að miklar líkur séu á því að margt sé að í stofnanakerfinu og annars staðar í hinum opinbera rekstri. Við erum oft mjög upptekin af því sem gerist nálægt okkur, þegar það bætist við aðstoðarmaður í Stjórnarráðinu eða nýr starfsmaður er ráðinn, en við gefum því ekki gaum að í einstaka stofnunum undir ráðuneytunum er oft fjöldi starfsmanna sem er langt umfram það sem er í einstökum ráðuneytum og þar er enginn að spyrja hvort það voru ráðnir fimm eða tíu. Frekar hefur mér reyndar þótt að ef ekki er verið að ráða og auka útgjöldin þá sé eitthvað að. Og það hefur verið mín helsta athugasemd við umræðu um fjárlögin hér í þinginu, að það er alltaf settur sami mælikvarðinn á það hvort ríkisstjórnin er að ná árangri, en það er hvort útgjöldin eru að aukast.