152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:29]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er bara tímabundið hérna og ætla ekki að fara að tæta í mig þennan bækling, en ekkert af þessu kemur á óvart. Vissulega er þetta allt saman mjög tæknilegt. Þarna er verið að færa fjármagn á milli, sem við áttum von á því að ráðherrastólunum fjölgaði og ráðherrastóll kostar peninga, þannig að þetta er ekkert sem ætti að koma þingmönnum á óvart. Engu að síður er ég hér sem fulltrúi Flokks fólksins sem lætur sig varða minnihlutahópa, eldri borgara, barnafjölskyldur og fátækt fólk og þá byrja ég alltaf á því að fletta upp fjölskyldumálunum og það er auðvitað bara óbreytt fjárheimild. Þá verður mér hugsað til þessa stóra verkefnis sem við stöndum nú frammi fyrir, við erum að taka á móti 200–300 börnum og mögulega 2.000 flóttamönnum. Ég spyr mig: Er hér ekki komin ástæða fyrir auknar fjárheimildir til þess einfaldlega að styrkja sveitarfélögin? Hvernig eiga sveitarfélögin að standa undir öllu þessu sem við viljum gera vel og megum alls ekki bregðast í? Við þurfum jú að finna rými í skólum, leikskólum, stóla, borð, tómstundir og íþróttir og allt, því að við viljum að þessi börn komist sem fyrst inn í íslenskt samfélag. Sum verða kannski stutt hérna, vonandi lýkur þessum ósköpum fljótt, en önnur eru komin til að vera og skyndilega vantar fjármagn. Hefði ekki þurft að skoða það í þessu samhengi núna og gera einhverjar breytingar með tilliti til þess?