152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:35]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leggja fram svokallaðan tæknilegan fjárauka. Um engar fjárheimildir er að ræða, það er aðeins verið að skipta ráðuneytunum upp. Þessi fjárauki er svolítið lýsandi fyrir nálgun ríkisstjórnarinnar þessa dagana. Það er verið að dúlla sér við að færa deildir á milli, ákveðið að fara í heljarinnar uppstokkun á stjórnkerfinu á nokkrum vikum. Þetta eru 10% af ríkisumsvifum, 120 milljarðar, sem er verið að færa til hér á nokkrum vikum og liggur svona ótrúlega mikið á þrátt fyrir að engin greining hafi legið á bak við þetta. Ég get getið þess að ég hef reyndar óskað eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um hvað hafi legið á bak við þessar tilfærslur, hvort þetta hafi bara verið stólaleikur í umræðum milli ríkisstjórnarflokkanna á þessum nokkru vikum eða heljarinnar stefnumótunarniðurstaða eftir síðasta kjörtímabil.

En það heyrist mjög lítið frá þeim í þeim málefnum sem virkilega brenna á fólki þessa dagana sem eru lífskjör í landinu. Hér var reyndar nefnt af hæstv. fjármálaráðherra að þessi fjárauki hafi nú bara verið lagður fram í febrúar en ég get reyndar ekki betur séð en að það hafi verið 12. mars sem þessi fjárauki var lagður fram. Gott og vel. En það eru engin þingmál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem snerta ástandið í dag. Það er nú bara svo að það eru ekki margar þingvikur eftir til að leggja fram mál ef það á að koma inn í þingið núna. Síðan kemur sumarfrí og eftir það er haustið komið, kjarasamningar komnir, þannig að hér er látið eins og það sé nægur tími til stefnu en það er það einfaldlega ekki. Hér fengust heldur ekki svör við því hvort einhvers konar vinna væri í gangi við þetta. Þau virðast vera að stinga hausnum í sandinn. Það var sagt hér um daginn að ekkert lægi á því að skoða aðgerðir fyrir heimilin og þetta var hæstv. fjármálaráðherra að nefna líka hérna. Það sést líka í þessum fjárauka, ef maður hefur áhuga á því hvað hæstv. ráðherra segir að gæti mögulega skoðast á næstu mánuðum, en ekki er mikill tími til stefnu miðað við þingdagskrá, að ekki á að leggja fram neinn annan fjárauka. Við erum í rauninni að fá staðfestingu á því að ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera fyrir heimilin í landinu þrátt fyrir lífskjarakreppu og þrátt fyrir að nágrannalöndin okkar kynni hvern pakkann á fætur öðrum, líkt og við sáum fyrir tveimur árum.

Það er í rauninni að raungerast það sem átti sér stað hér í byrjun Covid þar sem bíða átti þar til ástandið var orðið svo slæmt að það varð að grípa inn í og fyrir vikið varð það miklu dýrara. Þetta er hvorki í anda laga um opinber fjármál, þar sem leita á hagkvæmustu leiða í ríkisrekstri, né í anda fjármálaráðherra sem talar sífellt um aðhald í ríkisrekstri. Þetta er einfaldlega svakalega dýr leið til að reka ríki, virðulegi forseti.

Höfum líka eitt í huga varðandi núverandi efnahagsástand vegna þess að hér var verið að vitna í digra varasjóði. Nú var það svo að viðbótarverðbólga í fyrra var rúmt 1%, þ.e. verðbólgan var 4,4% í staðinn fyrir 3,2% og aukakostnaður ríkissjóðs vegna verðbólgu var tæplega 9 milljarðar kr. í fyrra. Við samþykktum einmitt fjáraukalög í þinginu fyrir jól upp á 9 milljarða kr. af því að verðbólgan var þá vanspáð. Nú er verðbólgan komin langt umfram þær tölur sem minnst var á í fjárlagafrumvarpi og samþykktum fjárlögum. Bara síðast í febrúar, áður en þetta ástand skall á í Evrópu, spáði Seðlabankinn 5,3% verðbólgu sem er 2% hærri verðbólga en er í undirliggjandi spá fyrir núverandi fjárlög. Það var áður en þetta ástand skall á þannig að þessir varasjóðir geta hæglega tæmst vegna þessa ástands. Það er ekki hægt að nýta þessa peninga oftar en einu sinni. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hæstv. ráðherra vitnaði til þess að mögulega væri hægt að leita í þessa sjóði ef eitthvert þingmál kæmi óvænt inn í þingið á næstu viku vegna lífskjarakreppunnar eða mannúðaraðstoðar.

Það verða einfaldlega engar mótvægisaðgerðir kynntar og mér þætti eiginlega bara vænt um að heyra það. Við sjáum Svía stíga fram fyrir tveimur vikum og kynna 8 milljarða kr. pakka. Ég las umrædda fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu þar sem var verið að vitna í orkukostnað, að orkukostnaður heimilanna væri nú hlutfallslega lægri en til að mynda í Svíþjóð, en eina talan sem skiptir máli þegar verið að tala um lífskjör fólks hér á Íslandi í raun er kaupmáttur. Kaupmáttur í þessu tilviki sem við höfum verið að velta upp, við í Samfylkingunni, er kaupmáttur þeirra sem eru með lítið á milli handanna, ungt fólk, þar er bara verðbólgutalan nægilegur mælikvarði á það sem er að gerast í samfélaginu. Hér er að mælast með hæstu verðbólgu, á þessu svæði. Það þýðir ekkert að vera að taka liði út eftir hentisemi. Þetta eru liðir sem vega mjög þungt í bókhaldi margra sem eru í viðkvæmri stöðu í dag.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hver strategían er. Er það raunverulega að bíða og sjá aftur, þar til verðlagshækkanir hafa lekið út um allt, skollið af fullum þunga á ungt fólk og viðkvæma hópa? Ég velti því líka fyrir mér hvort einstaklingar í fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki áhyggjur af því að launakröfur muni aukast og leka út í verðlag og hafi engan áhuga á að taka þátt í virkri hagstjórn og reyna að bæta kjör viðkvæmra hópa hér fyrir fram, grípa inn í. Það er óábyrgt að grípa ekki inn í núna. Þetta mun bara þýða fjáraukalög síðar í haust sem verða enn stærri með meiri fjárheimildir en annars yrði og þetta mun óhjákvæmilega flýta því að fjármálastefnan sem við samþykktum fyrir nokkrum vikum bresti af því að núverandi fjármálastefna út þetta kjörtímabil er svo þröngt sniðin að það er varla gert ráð fyrir aukningu í verðbólgu án þess að ramminn springi nema það sé áætlun ríkisstjórnarinnar að bregðast við lífskjarakreppu í landinu með auknu aðhaldi á sem flestum sviðum.

Mig langar líka að koma inn á það sem ég rak augun í í frétt Stjórnarráðsins eða fjármálaráðuneytisins í gær varðandi aðgerðir fyrir heimilin. Þar er til að mynda tekið fram að ekki sé æskilegt að ráðast í almennar aðgerðir vegna þess að slíkt muni leiða til verðbólgu og hækka þar með húsnæðiskostnað hjá ungu fólki. Hér er alltaf einhvern veginn verið að tala í kringum hlutina. Það hefur enginn hér verið að tala fyrir almennum aðgerðum. Það sem er náttúrlega sérstakt í þessu ríkisstjórnarsamstarfi er að hér fara í gegn tillögur sem hafa gífurleg áhrif á verðbólgu í landinu án þess að gerð sé athugasemd við það í þessari aðhaldsstjórn. Við vorum síðast í gær til að mynda að tala um úrræði um séreignarsparnað sem var samþykkt í þessari ríkisstjórn og það er komið í ljós, eins og fólk grunaði, að það hefur fyrst og fremst nýst efri tekjutíundum landsins. Þetta hefur lekið inn á húsnæðismarkaðinn, pumpað þann markað upp, þrýst verðbólgu á húsnæðismarkaði upp og þar af leiðandi verðbólgunni sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Þetta er risastórt almennt úrræði sem við erum enn þá að eiga við. Hvergi er talað um áhrif þess á verðbólgu í landinu. Hér hefur eingöngu verið óskað eftir sértækum aðgerðum fyrir viðkvæma hópa, sértækum aðgerðum sem stærstu alþjóðastofnanir í heiminum tala um að skynsamlegt sé að ráðast í í dag vegna þess að við vitum að Seðlabankinn þarf að bregðast við með auknum aðhaldsaðgerðum og það hefur hann sagt að hann muni gera. Það er einfaldlega ótrúlegt að horfa upp á þetta. Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast í annað skiptið á tveimur árum, að fólk ætli að draga lappirnar með þetta. Ég skil einfaldlega ekki af hverju þetta er svona erfitt. Þetta er bæði rangt og gífurlega slæm hagstjórn. Við munum samþykkja hérna hærri fjárheimildir fyrir vikið vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér einfaldlega ekki til að sýna forystu í þessu máli.