152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[16:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram og kemur fram í þessum fjárauka að hér er kannski ekki verið að auka í útgjöld heldur verið að raða hlutunum niður. Þetta er svona eins og á heimili sem ákveður ekki að endurnýja það sem aflaga er farið, teppi og annað, heldur er ákveðið að raða bara húsgögnunum yfir helstu vankantana og keyra áfram. Við erum að samþykkja þetta núna nokkrum vikum eða mánuðum eftir að ríkisstjórnin var kynnt. Það tók langan tíma að mynda þessa ríkisstjórn en engu að síður gat hún litlu svarað um það hvað þetta myndi kosta þegar hún var mynduð. Fyrstu tölur voru nokkur hundruð milljónir og þetta er svo komið upp í 200 milljónir núna.

Við getum alveg rætt hversu gáfulegt það var að fjölga ráðuneytum og skipta þeim upp og gera það sem er verið að gera. Hæstv. ráðherra segir að hér hafi menn kannski verið að skapa skilvirkari stjórnsýslu og meira jafnvægi og ég held að það sé rétt, sem kom fram hjá öðrum hv. þingmanni, að jafnvægið hafi kannski snúist um valdajafnvægi innan ríkisstjórnarinnar frekar en annað, það væri fróðlegt að vita. Hæstv. ráðherra segir að hægt sé að spara með góðu skipulagi og jafnvel fleiri ráðuneytum og ég er algjörlega sammála því. Ekki er loku fyrir það skotið að mögulega sé hægt að gera það og ég ætla ekki að útiloka að í einhverjum tilfellum dragist sú mynd upp. Ég er hins vegar ekki sannfærður um það, ég hef efasemdir um ýmsa skiptingu. Ég hef t.d. efasemdir um það, í heimi sem breytist í sífellu og á meiri hraða en áður, þar sem fólk þarf í raun að stunda nám frá vöggu til grafar, að það sé skynsamlegt að skipta menntamálunum upp í fimm ólík svið. En látum það eiga sig, það getur vel verið að það komi í ljós. En það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra ætlar þá að láta vinna einhvers konar úttekt á því hvort allt hafi gengið eins og smurt eða hvort það myndist einhverjir vankantar þannig að það geti þá alla vega beðið næstu ríkisstjórnar eða þessarar að snúa til baka ef það reynist ekki vera.

Síðan var annað sem hæstv. ráðherra sagði sem mér finnst býsna merkilegt. Hann sagði: Ja, ég meina, ef það kemur í ljós að ráðast þarf í meiri útgjöld er alltaf hægt að leggja fram önnur fjáraukalög í haust. Mig langar að staldra aðeins við þessa hugsun. Nú er það auðvitað þannig að ráðherrar og ríkisstjórn sitja í umboði þingsins og það er þingið sem ákveður í rauninni fjárveitingarnar þó að tillaga að fjárlögum komi frá ríkisstjórn. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Ef ríkisstjórnin sér eitthvað í kortunum, ef það er eitthvað úti við sjóndeildarhringinn sem er öðruvísi en reiknað var með, ber ríkisstjórninni þá ekki siðferðileg skylda til að sýna a.m.k. þá lágmarkskurteisi að flagga því og búa þingið undir að mögulega þurfi að bregðast við síðar á árinu?

Mér dettur í hug í þessu sambandi að stundum er sagt að það að Íslendingar gefi stefnuljós eftir að þeir eru búnir að beygja beri vitni um sagnfræðiáhuga þjóðarinnar. Ökumenn voru að segja hvað þeir voru búnir að gera, þeir voru ekki endilega að segja hvert þeir voru að stefna. Það minnir dálítið á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og þessi fjáraukalög og þingmálaskráin ýtir eiginlega undir tilhneigingu til þess að trúa að hér sé um svipaðan hlut að ræða, þetta sé fyrst og fremst sagnfræðiáhugi ríkisstjórnarinnar, hvað hún er búin að gera, en hún hefur engan minnsta áhuga eða sýnir enga tilburði eða er of nærsýn til að átta sig á því að það eru skip á sjóndeildarhringnum sem eru ekki vön að sigla þar og við því þarf mögulega að bregðast.

Í fjárauka á Íslandi er yfirleitt verið að biðja um peninga fyrir það sem búið er að gera þó að svo sé ekki í þessu tilfelli. En það er ekki tekið á því sem óhjákvæmilega mun gerast og þarf að gera og um það hlýtur þessi umræða hér í dag fyrst og fremst að snúast þótt næg ástæða sé til að ræða hversu gáfulegt það var að fjölga ráðherrum.

Við vitum að það geta alltaf komið upp ófyrirséðir hlutir. Þess vegna erum við með fjárauka og þess vegna er það stundum í fjárauka að við bregðumst við og ekkert við því að gera. Það gerðum við í upphafi Covid þó að við höfum beðið dálítið lengi eftir fyrstu aðgerðum. En í þessu tilfelli erum við með tvennt sem er algerlega borðleggjandi. Það eru annars vegar þær efnahagshorfur sem eru uppi og þær efnahagsaðstæður sem eru uppi vegna tveggja ára baráttu í Covid sem hefur aukið ójöfnuð, sem hefur gert viðkvæmum hópum erfiðara fyrir og er líklegt að muni gera það áfram, og hins vegar mjög ískyggileg þróun í Evrópu, svo vægt sé til orða tekið.

Hér hefur hv. þm. Kristrún Frostadóttir farið ágætlega yfir það sem hvílir kannski þyngst á okkur Íslendingum í augnablikinu, sem eru auðvitað heimilin og þeir hópar sem hafa dregist aftur úr eða munu fyrirséð lenda í vanda, sem hafa kannski lent í vanda og munu lenda í vanda vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar fyrir einu ári, þegar hæstv. ráðherra sagði hér að við lifðum í nýjum vaxtaveruleika og gerðum ráðstafanir miðað við það. Það er því ekki bara að ríkisstjórnin þurfi að bregðast við, hún skuldar auðvitað þessu fólki ákveðin svör. Hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór mjög vel yfir þetta og ég ætla mér ekki að bæta neinu þar við og mér fannst það gert með sannfærandi hætti.

Mig langar hins vegar að ræða þennan seinni hluta sem ég talaði um og það er ófriðurinn í Evrópu. Hann mun auðvitað birtast með margvíslegum hætti, líka í efnahagsástandinu, með hærra hrávöruverði, með ýmsum hætti sem mun bitna á heimilum landsins, en við erum líka að takast á við mannlega krísu. Við erum að takast á við stærsta flóttamannavandamál sem sést hefur í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld og það er af þvílíkri stærðargráðu að ég held að fólk átti sig almennt ekki á því enn þá.

Það hefur komið fram í orðum og minnisblöðum frá utanríkisráðuneytinu að við reiknum með að allt að 800 manns leiti hingað, takið eftir, leiti hingað, þá væntanlega af sjálfsdáðum, og við séum vel í stakk búin til að bregðast við því. Það er sannarlega gott af því að það þurfum við að gera. Hér hafa ráðherrar talað um að við ætluðum að opna arminn.

Skoðum aðeins hvernig okkar næsta nágrannaþjóð er að bregðast við nákvæmlega sama vandamáli er varðar stríðið í Úkraínu. Ég ætla að nefna þrennt. Í fyrsta lagi eru Norðmenn að leggja fram áætlun og kalla eftir fjárheimildum frá þinginu fyrir stórkostlegri uppbyggingu í varnarmálum. Sumt af því er ekki viðeigandi að ræða hér vegna þess að það varðar vopn og tilflutning á herliði og ýmislegt sem við erum blessunarlega laus við hér á Íslandi af því að við erum aðilar að varnarbandalagi Atlantshafsbandalagsins, en það er ein tala þarna, 200 milljónir í netöryggi. Það er svo heppilegt með Noreg að tala um hann af því að þar er hægt að nota sömu tölurnar. Þeir eru 15 sinnum fleiri en við og krónan þeirra er 15 sinnum verðmætari en okkar þannig að þetta er sama tala.

Við Íslendingar erum í efsta sæti þegar kemur að því hversu þjóðin er netvædd og nettengd og mikill þátttakandi í hinu stafræna umhverfi. Við erum hins vegar í 67. sæti þegar kemur að því hvernig öryggi okkar er háttað og þar hljóta nú kannski að vera einhverjar brýr að brúa, hæstv. ráðherra. 200 milljónir eru væntanlega ekki teknar upp úr veski utanríkisráðherra án þess að gera þá ráðstafanir einhvers staðar annars staðar á móti og ég spyr hvort núverandi ástand kalli t.d. ekki á aukin útgjöld í varnarmálum þegar kemur að netöryggi og ýmsu sem því tilheyrir.

Í öðru lagi er ríkisstjórn Noregs líka að kalla eftir fjárheimildum til að bregðast við þeim fyrirsjáanlega vanda sem mörg fyrirtæki eru að lenda í vegna stríðsins, beinna og óbeinna áhrifa af stríðsátökum. Hér hef ég ekkert heyrt talað um það.

Svo í þriðja lagi, og kannski það sem skiptir mestu máli, og ég ítreka það sem ég sagði áðan að utanríkisráðuneytið hefur sagt að það reikni með að allt að 800 manns leiti hingað — hvernig eru Norðmenn að hugsa þetta? Jú, þar er myndin teiknuð allt öðruvísi upp og aðgerðaáætlunin og fjármögnunin og viðbúnaðurinn. Þeir reikna með að 35.000 manns leiti til Noregs. Það samsvarar 2.300 manns hérna, þ.e. þrisvar, fjórum sinnum tölunni sem við reiknum með, ókei, en þeir gera ráð fyrir að þurfa að búa sig undir að 100.000 manns komi til Noregs. Það myndi gera á Íslandi 6.500 flóttamenn.

En þetta eru bara þær ráðstafanir sem þau eru að gera vegna þeirra sem gætu leitað til þeirra. Síðan eru þau líka að stíga inn í vandamálin sem eru að skapast með miklu markvissari hætti, og fjármagna það, heldur en við erum að gera. Þau eru t.d. að sækja 2.500 manns til Moldóvu sem er fátækt ríki og hefur núna fengið flóttamenn sem eru um 15% af íbúatölunni. Þetta samsvarar því að við værum að fara út og ná í 166 flóttamenn. Þau eru að fara og ná í og aðstoða sjúklinga sem geta eðlilega ekki legið inni og fengið aðhlynningu á sundurtættum og sprengdum sjúkrahúsum, 550 sjúklinga til Noregs, til að þeir fái aðhlynningu þar. Þau reikna með því að þessu fólki fylgi svo aðrir; aðstandendur, það geta verið börn, makar og annað slíkt, 2.750 manns. Það eru 160–170 manns ef við miðum við tölur á Íslandi. Því hlýt ég að spyrja í fullri einlægni: Trúir ríkisstjórnin því að það ástand sem er að skapast muni ekki kosta okkur umfram það sem við höfum þegar gert ráð fyrir í fjárlögum? Og væri ekki skynsamlegt, og væri það ekki virðing við þingið, að reyna að slá á þá tölu og áætla hana, jafnvel þótt það þurfi svo að breyta henni aftur í haust? Það væri þá viðleitni til að horfa á sjóndeildarhringinn og átta sig á því hvort það er eitthvað að gerast þar, svo ég tali nú ekki um þau augljósu vandræði sem eru að skapast hér innan lands fyrir heimili og margt fólk. Þó að við getum glímt við vaxtahækkanir, olíuverðshækkanir og matvöruhækkanir getur margt fólk því miður einfaldlega ekki gert það. Það er hugarfarið sem í þessu birtist. Það er að gera kannski ráð fyrir því að jú, jú, það sé alveg rétt að þessi útgjöld komi, allt í lagi, við bara förum á ballið og borgum, og svo er það bara eftir helgi sem við gerum það upp. Kannski ættum við að velta því fyrir okkur áður en við förum á barinn: Hvað erum við með mikið í vasanum?