152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að svona almennt og óháð akkúrat þessari umræðu sé það akkillesarhæll okkar Íslendinga að vera alltaf í viðbragðinu, að vera alltaf að bregðast við hinu og þessu sem jafnvel væri hægt að komast hjá ef við horfðum aðeins lengra fram í tímann, þannig að ég tel augljóst að það sé skynsamlegt að gera það. Ég veit ekki hvort þessi fjárauki er svo óundirbúinn. Ég veit ekki hversu marga tugi funda þríeykið í ríkisstjórninni hélt og hve margar vikur það tók, væntanlega hefði verið hægt að hafa á kantinum einhverja einstaklinga sem teiknuðu upp og röðuðu peningunum samhliða. En það er þessi hroki sem birtist í að koma með þetta alltaf eftir á. Og núna birtist okkur bara sú staða að annaðhvort ætla þau ekki að gera neitt þrátt fyrir öll óveðursskýin sem eru að hrannast upp á himninum, og það er auðvitað verri kosturinn, a.m.k. fyrir fólkið og heimilin í landinu, eða þau ætla bara að ráðast í það þegar þeim dettur í hug og eyða þeim peningum sem þeim dettur í hug og sækja svo fjárheimildirnar eftir á. Það er þó a.m.k. leið til að gefa frat í þingið og segja: Heyrðu, þið eruð bara okkar auðmjúku þrælar og afgreiðið bara það sem við ætlum okkur. Hvort tveggja er hlutur sem þarf einhvern veginn að heyra sögunni til. En ég vona svo innilega að það verði seinni kosturinn og það sé verið að gefa frat í okkur, af því að það væri verri kostur ef ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt til að mæta stöðu heimilanna og ekki neitt til þess að mæta þeim vanda sem bíður milljóna manna á flótta í nágrannaríki okkar.