152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir góða ræðu og fyrir að taka hér upp málefni sem er mjög mikilvægt að ræða í þessu samhengi fjáraukalaga, sem er einmitt móttaka flóttafólks og það að við eigum von á stórauknum fjölda flóttafólks hingað til lands og að það muni að sjálfsögðu kalla á aukin útgjöld og bregðast þurfi við því. Ég velti fyrir mér því viðhorfi að gera það ekki einmitt fyrr en mögulega eftir á, hvort það búi ekki líka til þessa hugmynd um skort inni í kerfinu og geri það að verkum að burt séð frá því hvort aukinn kostnaður verði síðan greiddur eftir á eða ekki þá sé upplifunin að það sé ekki til nægilegt fjármagn til þess að gera þetta vel þannig að þetta verði ekki gert nógu vel. Við höfum séð vísbendingar um þetta í fréttum þar sem almennir borgarar eru að sinna móttöku flóttafólks þar sem enn er ekki búið að koma upp þvottaaðstöðu fyrir flóttafólk frá Úkraínu þar sem erfitt hefur reynst að ná í starfsfólk Útlendingastofnunar varðandi þessi mál og þar sem enn virðist ekki komið almennilegt lag á hvernig eigi að standa að þessu. Þá velti maður fyrir sér: Býr þetta verklag, að vera ekki bara tilbúin með heimildir til að auka getu kerfisins til að taka á móti flóttafólki, ekki líka til hvata til að gera það síður en ella og gera það af minni myndarbrag en ella? Vegna þess að það er þessi óvissa fyrir hendi, þessi upplifun á skorti, á fjárskorti, sem liggur inni í kerfinu og verður til þess að jafnvel verður erfiðara að upplifa getu til að takast á við þetta verkefni.