152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, varðandi þann hluta sem lýtur að móttöku flóttamanna þá finnst mér eiginlega vera augljóst að það sé tvennt uppi á teningnum. Það er annars vegar alger skortur á raunsæi eða þá bara metnaðarleysi af því að við erum að áætla að fá hingað þrisvar sinnum færra fólk en varfærnustu spár Norðmanna og 12 sinnum færra en það sem þau reikna með að geta þurft að glíma við.

Við þurfum náttúrlega að hugsa um ýmislegt í þessu sambandi og þetta snýst ekki bara um ríkissjóð. Þetta snýst nefnilega líka um sveitarfélögin. Þau eru í fyrsta lagi mjög misjafnlega í stakk búin og þurfa alveg örugglega aðstoð. Ekki eru þau nú vel haldin fyrir vegna samninga við ríkið um ýmsa þjónustu. Á hinn bóginn liggur það líka fyrir, að mér skilst a.m.k., að eftir tvo mánuði hér muni þetta fólk fá fjárhagsaðstoð viðkomandi sveitarfélags. Sú fjárhagsaðstoð er eftir því sem ég best veit æði misjöfn, misgóð eftir því hvaða sveitarfélag það er. Það þarf einhvern veginn að jafna þetta og við ættum eiginlega að nota þessa stóru áskorun sem bíður okkar nú til þess að setjast strax niður með sveitarfélögunum og spyrja: Hvernig ætlum við að gera þetta, hvernig fjármögnum við þetta? Ríkið hlýtur, eðli hlutarins samkvæmt, að eiga að hafa mjög miklar skyldur þegar kemur að því að fjármagna það. Ég skil ekki hvernig er ekki hægt að orða það einu sinni hér í umræðu eða þessu plaggi eða öðru og ég spyr, og kannski er það út í hött: Af hverju er a.m.k. ekki kafli í greinargerð þar sem farið er yfir mögulega stöðu sem gæti komið upp í hinum og þessum málum? Þar er af nógu að taka.