152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:16]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Þegar rætt er um þetta frumvarp til fjáraukalaga er eingöngu verið að ræða þær tilfærslur fjármuna sem þurfa að eiga sér stað eftir að ákveðið var í málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar að fjölga ráðuneytum og færa til verkefni til að þessi nýju ráðuneyti hefðu einhver verkefni á sinni könnu. Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal í frumvarpi til fjárlaga greina frá fjárheimildum ríkissjóðs til málefnasviða og málaflokka og sundurgreina niður á ráðuneyti. Þetta frumvarp er því eingöngu lagt fram til að bregðast við þessu lagaákvæði og ekki eru sjáanlegar neinar efnislegar breytingar að öðru leyti. En þegar þessar tilfærslur eru skoðaðar þá er þarna um að ræða tilflutning fjármuna upp á 120 milljarða. Eins og hefur verið nefnt í dag eru þetta 10% af fjárlögunum sem renna að mestu leyti til tveggja ráðuneyta, nýs háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, það eru 85 milljarðar, og síðan er verið að búa til svona lítið og nett ráðuneyti menningar og viðskipta sem fær til sín 28 milljarða. Í áður samþykktum fjárlögum höfðu verið samþykktar tilfærslur, svo sem að húsnæðis- og skipulagsmál yrðu flutt til innviðaráðuneytis sem er eina ráðuneytið sem búið var að ræða af einhverri alvöru og með einhverjum fyrirvara, þannig að það var öllum ljóst að slíkar breytingar myndu eiga sér stað og það var ágætlega undirbúið þegar horft er til hvernig farið var í að undirbyggja önnur ráðuneyti. En síðan er það þannig að það eru einhver verkefni sem höfðu verið flutt og þau eru flutt aftur til baka.

Virðulegur forseti. Mér þykir athyglisvert að skoða umfang ráðuneyta eftir þessar breytingar allar og þá ekki síst í ljósi þess hversu misstór þessi ráðuneyti eru og yfir hversu miklum fjármunum þau hafa að ráða. Forsætisráðuneytið er látið í friði og ræður yfir 5,1 milljarði eins og áður var. Við sjáum nú þetta stóra mennta- og menningarmálaráðuneyti breytast í eitthvað sem heitir mennta- og barnamálaráðuneyti. Þetta ráðuneyti réði yfir 137 milljörðum en eftir þessar breytingar er það skorið niður í 49 milljarða. Utanríkisráðuneytið heldur sínu með rúma 24 milljarða. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sáluga, sem nú heitir matvælaráðuneyti, með atvinnugreinarnar þar undir, var skorið niður og fer úr rúmum 57 milljörðum í 33. Dómsmálaráðuneyti tekur á sig 2 milljarða niðurskurð og stendur núna í 53,7 milljörðum. Félagsmálaráðuneytið, sem nú heitir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, er minnkað um 15 milljarða og ræður yfir rúmum 275 milljörðum. Heilbrigðisráðuneytið heldur sínu, 318 milljörðum, og fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur sínum 82 milljörðum. Gamla samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti er horfið og til verður þetta innviðaráðuneyti sem ég nefndi áður, sem hefur, vegna tilflutninga á verkefnum til þessa nýja ráðuneytis, stækkað um 15 milljarða og ræður yfir 93,8 milljörðum. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem fékk viðhengið loftslagsráðuneyti til viðbótar, stækkar um 2,8 milljarða, og væntanlega er það þá bara vegna aðgerða í loftslagsmálum, og hefur nú til ráðstöfunar 28,6 milljarða.

Það var svo sem viðbúið að við myndum sjá frumvarp sem tæki á þessum tilfærslum fjármuna af því að það er í samræmi við lög um opinber fjármál. En það vekur athygli að hvergi er verið að bregðast við þeim áskorunum sem almenningur stendur frammi fyrir núna vegna mikillar verðbólgu, hækkandi matarverðs, hækkandi húsaleigu, hækkandi eldsneytisverðs og aukins vaxtakostnaðar, auk þess sem leigugreiðslur hafa hækkað verulega. Nýframlögð þingmálaskrá gerir a.m.k. ekki ráð fyrir að inn séu að koma einhver mál frá ríkisstjórninni til þess að bregðast við þeirri stöðu.

Virðulegur forseti. Þessi fjárauki er, þótt hann sé kallaður svo, í raun og veru ekki fjárauki í þeim skilningi að verið sé að bæta við fjármunum, heldur er eingöngu verið að rokka með fjármuni til og frá. Þrátt fyrir að við sjáum ekki neina aukningu í þessu frumvarpi þá liggur fyrir að kostnaður vegna þessara breytinga á eftir að koma í ljós. Mikil vinna hefur átt sér stað. Það er búið að eyða dýrmætum tíma starfsmanna í að vinna að þessum breytingum. Það verður til verulegur kostnaður vegna ráðningar á starfsfólki. Það er aukinn húsnæðiskostnaður og ýmislegt sem við erum ekki búin að sjá fyrir og ekki búin að sjá fyrir endann á. Þrátt fyrir að eitthvað hafi verið gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpi, undir lið sem heitir Sértækar fjárráðstafanir, þá mun það hvergi duga til. Við eigum eftir að fá að sjá stóra tékkann sem verður til vegna þessara breytinga, tékka sem rétt hefði verið að nýta í annað, eitthvað meira, eitthvað betra og eitthvað merkilegra.

Virðulegi forseti. Það sem mörgum okkar finnst vanta í dag, í stað þess að verið sé að leika sér með fjármuni fram og til baka, eru eiginlegar stuðningsaðgerðir fyrir fólkið í landinu. Það er sífellt talað um að afkoma heimilanna sé góð og launavísitalan hafi hækkað um 7%. En þá spyr maður: Hvað þýðir það þegar launavísitalan hefur hækkað um 7% í 7% verðbólgu? Það er talsverður hópur sem er undir þessu meðaltali launavísitölunnar sem verður þá fyrir kaupmáttarrýrnun. Hann þarf að taka á sig hækkandi eldsneytisverð. Hér er talað um að vaxtastig sé svo lágt miðað við það sem var þegar „ég var að kaupa mína fyrstu íbúð“. En það hefur verið talað fyrir því nú í marga mánuði og jafnvel ár að það væri heppilegt fyrir fólk að taka óverðtryggð lán af því að hér væri kominn svo mikill stöðugleiki. Það myndi gagnast fólki best að taka óverðtryggt lán, þá yrði eignamyndunin svo mikil og allir myndu græða á því. En málið er bara að það fólk sem tók óverðtryggð lán á síðasta einu eða tveimur árum þegar vextir voru mjög lágir er að lenda í verulegu sjokki núna. Það eru dæmi þess að afborgunarbyrði lána sé að hækka um 30.000–40.000 kr. á mánuði og til að geta borgað slíka upphæð þá þarftu að hafa 50.000–60.000 kr. aukalega til þess að greiða það. Fólk tekur slíka fjármuni ekki upp af götunni. Til viðbótar við það er allt að fara af stað. Hækkanir á matvöru eru geigvænlegar milli mánaða og við erum að borga 300 kr. fyrir bensínlítrann. Það er náttúrlega alveg út í hött.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nefnt að hann væri tilbúinn til að skoða breytingar á álögum á bensíni. Ég hefði viljað sjá það gerast í þessum fjárauka, að verið væri að leggja til einhverjar slíkar aðgerðir sem myndu þá þjóna heimilunum. Það er komin fram tillaga núna. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur nefnt að það ætti aðeins að bæta í rafmagnsbílaflotann, um einhverja 5.000 bíla. Það held ég að kosti 5 milljarða samkvæmt þeim upplýsingum sem mér finnst ég hafa fengið. Er rétt að nýta þá fjármuni í það akkúrat núna? Er ekki betra að hjálpa til með húsnæðisstuðning eða eitthvað þess háttar til að létta undir fólki sem er ekki að fara að kaupa sér 5 eða 6 eða 7 millj. kr. bíla á þessum tímapunkti? Ég spyr: Er verið að forgangsraða rétt þegar farið er svona að, verið að eyða tæpum 2 milljörðum í að búa til stóla fyrir ráðherra, verið að dúllast við að færa peninga á milli ráðuneyta og á sama tíma er fólk í verulegum vanda? Eins og hér hefur verið nefnt skiptir ekki máli fyrir þingmenn sem hafa yfir milljón á mánuði eða meira í laun eða fyrir ráðherra sem fá 2 milljónir hvort matarkarfan hækkar eitthvað pínulítið eða bensínið aðeins meira, en það skiptir máli fyrir fólk sem er kannski með strípaðan taxta upp á 350.000–360.000 kr. Það bítur verulega í. Ráðherrann nefndi að það gæti komið annar fjárauki og vonandi kemur hann. Við höfum séð að Svíar eru að fara af stað og breyta álögum á eldsneyti en við sjáum engar slíkar aðgerðir hér. Það er beðið með það allt saman. Alveg eins og þegar við vissum í nóvember, desember að allt væri að fara til fjandans út af kórónuveirunni en þá var ekkert gert. Atvinnulífið var látið hanga, veitingageirinn látinn hanga, það var lokað á fólk og fólk missti vinnu. Þetta var fyrirséð og við hefðum getað sett það inn í fjárlögin en það var ekkert gert. Það er alltaf verið að bregðast við eftir á.

Mér finnst þetta rýrt, að sjá þetta svona. Það vekur ekki von í brjósti og ekki von í brjósti fólks sem þarf á því að halda að því sé rétt hjálparhönd á þessum tímapunkti. Óskandi er að við sjáum einhverjar aðgerðir aðrar en þessar fljótlega þar sem tekið verður á þeirri stöðu sem uppi er, svo að ég tali nú ekki um það sem mun fylgja þessu blessaða fólki sem er að flýja heimili sín og fara heimshluta á milli og þarf á stuðningi okkar að halda. Við erum alveg í þeirri stöðu að geta veitt þann stuðning.