152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:31]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur. Við sjáum það auðvitað á þessari nýframlögðu þingmálaskrá að þar er ekki neitt nýtt að hafa. Í raun og veru er það farið út sem við töldum vera bitastætt og áttum kannski von á því að geta stutt, það er horfið af þingmálaskránni. Það er kannski vegna þess að fólk hefur verið svo upptekið við að færa verkefni á milli ráðuneyta, búa til ný ráðuneyti, að það kemur ekkert. Það er ekki verið að smíða frumvörp þegar þarf að velta fyrir sér hvernig eigi að reka þetta batterí. Ég held bara að hópurinn sem stendur í ströngu við að smíða frumvörp svona dagsdaglega hafi verið upptekinn í allt öðru. Mér finnst þetta auðvitað skrýtin forgangsröðun. Hafandi starfað innan verkalýðshreyfingarinnar í tvo áratugi finnst mér sérstakt að sjá að húsaleigustuðningur minnkar, barnabætur lækka og þetta er forgangsröðun sem ég vil ekki sjá og vil ekki standa að. Ég átta mig ekki á því, horfandi á þessa ríkisstjórn sem kennir sig að hluta til a.m.k. við vinstri stefnu eða félagshyggju, að þetta séu hennar tillögur. Hvar eru félagshyggjutillögur Vinstri grænna í þessu? Ég sé þær ekki. Ég myndi gjarnan vilja sjá nýja forgangsröðun í þessu.