152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:36]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langaði til að velta upp uppskiptingu fjármagns eftir þessar tilfærslur, þetta dúllerí sem er svolítið rætt um hérna. Fram kemur að fjármálaráðuneytið sitji eftir með sína 83 milljarða. Ég myndi vilja færa rök fyrir því að fjármálaráðuneytið sitji í rauninni uppi með 1.200 milljarða, sem eru bara fjárlög landsins, vegna þess að það virðist ansi ljóst að það er fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra sem stýrir öllum langstærstu aðgerðum hér á landi. Ég er svona aðeins að velta því upp í samhengi við þetta hvað hv. þingmanni finnst um þessa stöðu og hvort hann skilji það í raun sem slíkt að þetta séu einmitt ekki 800 milljarðar heldur 1.200 milljarðar vegna þess að þær aðgerðir sem hér er verið að ráðast í eru til að mynda ekki í samhengi við óskir Framsóknarflokksins sem er að tala um að hækka veiðigjöld, hvalrekaskatta, tala um að knýja bankana til að styðja betur við heimilin. Það er nú ekkert af svona málum komið fram á þingmálaskrá og hæstv. fjármálaráðherra, sem er með sína 1.200 milljarða í þessum ráðuneytum öllum, harðneitar þessu. Þetta er varla í samhengi við stefnu VG, ákveðna félagshyggju. Hér heyrum við orðalag um að ekki megi ráðast í aðgerðir fyrir viðkvæma hópa út af þensluáhrifum. Samt höfum við séð þessa ríkisstjórn fara í aðgerðir sem þrýsta fjármagni að fólki sem er tekjuhátt. Það var þrýst á framlengingu á endurgreiðslu á byggingarkostnaði, sem fór sérstaklega til byggingariðnaðarins, þrátt fyrir að það ætti að teljast þensluhvetjandi. Það er verið að taka ákvarðanir um alls konar aðgerðir að því virðist á vegum eins flokks í þessari ríkisstjórn. Mig langaði til að velta upp þeirri spurningu til hv. þingmanns hvar valdið raunverulega liggur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að hans mati.