152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann, mig langar að tala um verklagið. Nú var það þannig að lengi vel vissum við ekki hvort það væri komin ríkisstjórn, svo var tilkynnt ríkisstjórn, í nóvember ef ég man rétt, með einhverjum titlum sem við vorum ekki alveg viss um hvernig við ætluðum að hafa. Það var eiginlega ekki heldur alveg víst hvert verkefnin ættu að fara, svo þegar það var orðið ljóst hvert verkefnin ættu að fara þá var það lagt fram og núna, nokkrum mánuðum seinna, er verið að fara í einhverja excel-leikfimi sem felst í því að færa fjármagnið fram og til baka. Það er verið að gera þetta löngu eftir að breytingarnar fóru fram og eins og hv. þingmaður benti á þá er í rauninni eiginlega ekkert að breytast annað en að það er bara verið að færa tölur á milli. Hefði ekki verið hægt eða væri ekki betra verklag að gera það samhliða breytingunum? Þetta er nú ekki það flókið, ekki það margir bókhaldslyklar sem verið er að fjalla um hérna. Maður hefði haldið að um leið og vitað var að einhver ákveðinn hlutur eins og nýsköpun ætti að fara yfir hefði auðveldlega verið hægt að færa þetta á milli. Hvað finnst hv. þingmanni um að það hafi tekið allan þennan tíma, frá því í nóvember þangað til núna í mars, að láta okkur vita hverju raunverulega á að eyða í hverju ráðuneyti? Er þetta bara venjulegt?