152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[17:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það mál sem við erum að ræða hér í dag sýnir okkur auðvitað svart á hvítu hversu mikil uppstokkun er í Stjórnarráðinu og þá hversu mikill tilflutningur á verkefnum er á milli ráðuneyta. Það skal enginn reyna að velkjast í vafa um það eða hafa einhverjar efasemdir um það að auðvitað er ekkert hægt að reikna það út með einu einföldu reikningsdæmi hvernig þetta muni allt saman skila sér, bæði þá með tilliti til faglegra þátta, tilliti til þeirrar þjónustu sem verið er að veita og síðan til þeirra fjárhagslegu hagsmuna ríkissjóðs sem undir eru, því að auðvitað fer enginn af stað í þessa vegferð, vonum við, öðruvísi en að markmiðið sé að efla þjónustu við fólk og fara betur með fjármuni og gera samfélagið sanngjarnara og skilvirkara, ef við megum orða það þannig.

En ég vildi í þessari ræðu koma inn á tvennt: Það er annars vegar það sem snýr beint að þætti sem margir þingmenn hafa rætt í þessu samhengi, þ.e. vextirnir og verðbólgan, og ég ætla að koma aðeins inn á það hér á eftir. En fyrst langar mig aðeins að rifja upp, af því að við erum að tala um þessa skiptingu, hvernig að þessu öllu var staðið. Það er mjög hollt fyrir okkur að fara í gegnum þá umræðu aftur, held ég, sem fram fór hér í þingsal fyrir ekkert svo löngu. Það var nefnilega þannig að þessi ríkisstjórn og stjórnarherrarnir höfðu nægan tíma til að undirbúa það hvernig þeir vildu skipta upp Stjórnarráðinu. Það kom hins vegar skýrt fram þegar verið var að fara í gegnum málið allt hér, þegar þing tók til starfa eftir að því verki var lokið og búið var að ganga frá öllum lausum endum, eða því sem næst, sem sneri að talningarmálum í Norðvesturkjördæmi, sem var auðvitað skjól sem ríkisstjórnin nýtti sér til þess að taka langan tíma í þetta, að það var ekkert sérstaklega vandað til verka þegar menn voru að undirbúa þetta allt saman. Þá vil ég sérstaklega nefna að það kom mjög skýrt fram við þinglega meðferð málsins að sú fagmennska sem er til innan Stjórnarráðsins og sú sérfræðiþekking sem er til innan Stjórnarráðsins var ekki nýtt fyrr en einhvern tímann eftir dúk og disk. Þetta var einhvern veginn allt saman bara rissað upp á servéttu og okkur síðan seld sú hugmynd að þetta væri gert til að endurspegla áherslur og stefnumið ríkisstjórnarinnar á því kjörtímabili sem nú er tiltölulega nýhafið. Við vitum hins vegar að sannleikurinn er sá að það var auðvitað mest verið að fara í þetta föndur og þessar æfingar allar til þess að bregðast við kosningaúrslitum og breyttum valdahlutföllum innan ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst svolítið sérkennilegt, eftir að hafa hlustað á hæstv. fjármálaráðherra hér í umræðunum áðan tala um skilvirkni í ríkisrekstri og að fara vel með aurinn, að það hafi hreinlega aldrei komið til greina að bregðast við kosningaúrslitunum og breyttum valdahlutföllum innan ríkisstjórnarinnar með því einfaldlega að fækka ráðherrum. Það hefði verið hægt að gera það. Það hefði ekkert endilega þurft að vera leiðin að fjölga þeim. Þetta hefur auðvitað allt saman kostað einhverja milljarða með beinum hætti og liggur fyrir hér á kjörtímabilinu, bara sem hinn praktíski, fýsíski kostnaður við að skipta þessu upp. En síðan er það auðvitað allur kostnaðurinn sem fellur til út af áhyggjum sem menn viðruðu við vinnslu málsins. Orðið þjónusturof var t.d. mikið notað; að þegar svona mikil tilfærsla yrði á milli ráðuneyta gæti það hæglega gerst að það yrði einhvers konar þjónusturof sem myndi síðan skila sér bæði í verri þjónustu og svo líka því að kostnaður ríkisins til lengri tíma litið yrði jafnvel meiri en hann hefði verið með óbreyttu Stjórnarráði. Það var nú eitt af því sem var oft nefnt.

Það má auðvitað líka taka inn í þetta þá óvissu sem starfsmenn Stjórnarráðsins bjuggu við lengi því að lengi vel vissu engir hver þeirra vinnustaður eða hvert þeirra framtíðarframlag ætti að vera á vinnustöðum, þó að það hafi kannski að mestu leyti skýrst eftir því sem vikurnar liðu. En ég vildi gjarnan halda þessu til haga vegna þess að við sjáum svo mörg dæmi þess í löndunum í kringum okkur að þegar farið er af stað í svona vinnu þá eru, að mér finnst, miklu faglegri vinnubrögð viðhöfð. Það eru stofnaðir einhvers konar rýnihópar og faghópar og það er eðlilegt að leggja einhvers konar mat á það hver praktíski kostnaðurinn við það að búa til ný ráðuneyti er og ekki bara það heldur líka einhvers konar mat á það hvaða áhrif einhverjar breytingar og tilfærslur geta haft til lengri tíma, bara á málaflokkana sjálfa, útgjöld til þeirra og það allt saman. En ekkert af þessu var gert. Þetta var bara ákveðið á fundi þriggja manna. Og nú ætla ég ekkert að draga fjöður yfir það að það er alveg sama hverjir þessir þrír einstaklingar hefðu verið. Ef það hefðu verið þrír einstaklingar úr einhverjum öðrum flokkum þá hefði niðurstaðan líka alltaf verið óviss. Mér fannst mjög mikilvægt að halda því til haga að það kom svo ofsalega skýrt fram við vinnslu málsins að sú fagþekking, bæði við almenna breytingastjórnun og svo líka gagnvart mati á fjárhagslegum afleiðingum breytinganna, að sá mannauður, þau verðmæti inni í ráðuneytunum, var ekkert nýttur eins og hefði þurft að gera. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga nú þegar við erum að fara í gegnum þetta mál.

Við hlustuðum auðvitað öll eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra var að segja áðan í andsvörum til að mynda. Þá var svolítið verið að ræða um vextina og verðbólguna, eins og gefur að skilja, og ég verð að taka undir þau orð sem hér hafa fallið um andvaraleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeirri stöðu sem sannarlega er uppi. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra skauta svolítið létt yfir ákveðna hluti sem mjög brýnt er að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Mér brá og ég er enn að vona að mér hafi misheyrst þegar hæstv. ráðherra setti mál þannig upp að hann hefði fengið einhverjar upplýsingar um það innan úr einum banka að ekki væri um nema einhver örfá vanskil að ræða í framhaldi af öllum þessum miklu vaxtahækkunum og þessari miklu hækkun á verðbólgu, eins og það eitt og sér sé einhver mælikvarði. Fyrir það fyrsta hljótum við auðvitað að halda því til haga að við erum í vaxtahækkunarferli sem ekki er lokið. Vextir hér eiga eftir að hækka meira. Ég held að allir séu sammála um að það verði. Afleiðingarnar af þeim vaxtahækkunum hafa þegar skipt tugum þúsunda fyrir mörg heimili, einkum og sér í lagi þau heimili sem hlustuðu eftir þeim fagurgala sem farið var með í kosningabaráttunni, um að hér værum við komin í eitthvert sérstakt lágvaxtaumhverfi og full ástæða væri til að haga fjármálum heimila með þeim hætti að vextir yrðu lágir áfram jafnvel um langa hríð. Þetta var sagt af stjórnmálamönnum og stjórnmálaforingjum sem leiða þessa ríkisstjórn og þetta var líka sagt af seðlabankastjóra í ákveðnum viðtölum.

Þarna finnst mér að menn þurfi að kannast svolítið við ábyrgð sína vegna þess að þær afleiðingar sem við erum að fást við í dag út af vaxtahækkunum, og það skal enginn halda því fram að eini mælikvarðinn þar séu vanskil, eru til komnar vegna þess að menn töluðu mjög gáleysislega í kosningabaráttunni um nákvæmlega þessa hluti. Það er ofureinfaldlega þannig að vextir á Íslandi eru yfirleitt hærri og nánast alltaf hærri en í nágrannalöndunum. Það þurfti heimsfaraldur til til þess að vextir lækkuðu niður í þær tölur sem við sáum. Þetta tímabil þar sem vextir voru lægstir í sögunni stóð í heila fjóra mánuði og uppskriftin að þessu lága vaxtaumhverfi var ekki teiknuð upp af ríkisstjórninni, það þurfti heimsfaraldur til.

Þetta var sem sagt viðbragð við ástandi en ekki viðbragð við einhverjum aðgerðum sem gripið var til. Þegar hæstv. fjármálaráðherra stillir málum upp með þeim hætti sem hann gerði hér áðan þá hljótum við því öll að kalla eftir nánari skýringum á því hvort þetta sé raunverulega viðhorfið til þeirra heimila sem eru að taka á sig tugþúsundahækkanir. Og við þurfum ekki bara að tala um þær hækkanir sem eru að verða á óverðtryggðum lánum sem eru með breytilegum vöxtum. Fólk sem festi lánin sín á þessu stutta lágvaxtatímabili losnar úr því skjóli eftir ekkert mjög langan tíma og vextir verða örugglega talsvert hærri þá, þannig að ef menn hafa gert einhver langtímaplön, eins og menn gera gjarnan þegar þeir kaupa sína dýrustu eign á lífsleiðinni, þá blasir við að allar forsendur eru breyttar. Mér fannst viðhorfið sem kom fram í þessu öllu hjá fjármálaráðherra því ekki nægilega gott.

Síðan erum við í þeirri stöðu að það er há verðbólga í löndunum í kringum okkur og hún er líka mjög há hér. Aldrei þessu vant er verðbólgan í löndunum í kringum okkur að hækka til samræmis því sem er hér því að þetta hefur yfirleitt verið þannig að hún hefur verið talsvert hærri hér en í löndunum í kringum okkur. En þetta eitt og sér er gríðarlega mikið högg fyrir heimilin í landinu í gegnum húsnæðislánin, eins og við þekkjum, einfaldlega vegna þess að þetta leggst auðvitað af miklum þunga ofan á verðtryggðu lánin.

Kallað hefur verið eftir einhverjum aðgerðum, bæði til að mæta þessu með verðbólguna og til þess mögulega að mæta þessu með vextina. Það má svo sem alveg til sanns vegar færa að það getur alltaf verið álitaefni hvenær eigi að grípa til svoleiðis aðgerða og hvernig þær eiga að vera. En ríkisstjórnin hefur sýnt ákaflega lítið á þau spil um það hvers heimilin mega þó a.m.k. vænta; hvað verið er að hugsa ef mál halda áfram að þróast með þeim hætti sem líklegt er. Og svo er það auðvitað þannig að það að tala alltaf um vexti í sögulega lágu samhengi er auðvitað ekkert annað en algjör orðaleppur vegna þess að viðmiðið á Íslandi er í sjálfu sér hávaxtaumhverfi. Vextir sem eru sögulega lágir á Íslandi eru mjög háir ef við miðum við löndin í kringum okkur, sem við hljótum að þurfa að bera okkur saman við. Menn velja sér viðmið í þessari umræðu, finnst mér, sem sýna kannski vanda þeirra heimila sem undir eru — það er lítill skilningur á því. Ég ætla ekki að nota orðið lítilsvirðing en menn eru að hlaupa svolítið undan ábyrgð sinni vegna þess að ábyrgðina er miklu meira að finna bæði í verkum ríkisstjórnarinnar og líka aðgerðarleysi hvað varðar aðra þætti þegar kemur að þessum málum.

Ég myndi síðan gjarnan vilja nefna það líka að alltaf er vísað til þess hversu mikil verðbólgan er ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni í vísitölunni. Þetta er auðvitað eilíft umræðuefni og ég ætla svo sem ekkert að fara djúpt ofan í þá umræðu, en mér finnst ágætt að vita hversu mikil verðbólgan er án þess að húsnæðisliðurinn sé þar inni. En það breytir því hins vegar ekki að hann er þarna inni og meðan hann er þarna inni leggst samsvarandi kostnaður ofan á lán fólksins í landinu. Ég kalla því svolítið eftir því og hef gert það áður að menn kannist kannski aðeins betur við ábyrgð sína þegar kemur að efnahagsmálunum og það er full ástæða til að halda því til haga við umræðu þessa máls.